Gunnlaugs saga ormstungu (original) (raw)
Saga þeirra Hrafns og Gunnlaugs ormstungu eftir því sem sagt hefir Ari prestur hinn fróði Þorgilsson er mestur fræðimaður hefir verið á Íslandi á landnámasögur og forna fræði.
1
Þorsteinn hét maður. Hann var Egilsson, Skalla-Grímssonar, Kveld-Úlfssonar hersis úr Noregi en Ásgerður hét móðir Þorsteins og var Bjarnardóttir.
Þorsteinn bjó að Borg í Borgarfirði. Hann var auðigur að fé og höfðingi mikill, vitur maður og hógvær og hófsmaður um alla hluti. Engi var hann afreksmaður um vöxt eða afl sem Egill faðir hans því að svo er sagt af fróðum mönnum að Egill hafi mestur kappi verið á Íslandi og hólmgöngumaður og mest ætlað af bóndasonum, fræðimaður var hann og mikill og manna vitrastur. Þorsteinn var og hið mesta afarmenni og vinsæll af allri alþýðu. Þorsteinn var vænn maður, hvítur á hár og eygur manna best.
Svo segja fróðir menn að margir í ætt Mýramanna, þeir sem frá Egli eru komnir, hafi verið menn vænstir en það sé þó mjög sundurgreinilegt því að sumir í þeirri ætt er kallað að ljótastir menn hafi verið. Í þeirri ætt hafa og verið margir atgervismenn um marga hluti sem var Kjartan Ólafsson pá og Víga-Barði og Skúli Þorsteinsson. Sumir voru og skáldmenn miklir í þeirri ætt, Björn Hítdælakappi, Einar prestur Skúlason, Snorri Sturluson og margir aðrir.
Þorsteinn átti Jófríði Gunnarsdóttur Hlífarsonar. Gunnar hefir best vígur verið og mestur fimleikamaður verið á Íslandi af búandmönnum, annar Gunnar að Hlíðarenda, þriðji Steinþór á Eyri.
Jófríður var átján vetra er Þorsteinn fékk hennar. Hún var ekkja. Hana hafði átt fyrr Þóroddur son Tungu-Odds og var þeirra dóttir Húngerður er þar fæddist upp að Borg með Þorsteini. Jófríður var skörungur mikill.
Þau Þorsteinn áttu mart barna en þó koma fá við þessa sögu. Skúli var elstur sona þeirra, annar Kollsveinn, þriðji Egill.
2
Eitt sumar er það sagt að skip kom af hafi í Gufárós. Bergfinnur er nefndur stýrimaður fyrir skipinu, norrænn að ætt, auðigur að fé og heldur við aldur. Hann var vitur maður.
Þorsteinn bóndi reið til skips og réð jafnan mestu hver kaupstefna var og svo var enn. Austmenn vistuðust en Þorsteinn tók við stýrimanninum fyrir því að hann beiddist þangað. Bergfinnur var fátalaður of veturinn en Þorsteinn veitti honum vel. Austmaðurinn henti mikið gaman að draumum.
Um vorið einn dag ræddi Þorsteinn um við Bergfinn ef hann vildi ríða með honum upp undir Valfell. Þar var þá þingstöð þeirra Borgfirðinga en Þorsteini var sagt að fallnir væru búðarveggir hans. Austmaðurinn kveðst það víst vilja og riðu þeir heiman of daginn þrír saman og húskarl Þorsteins þar til er þeir koma upp undir Valfell til bæjar þess er að Grenjum heitir. Þar bjó einn maður félítill er Atli hét. Hann var landseti Þorsteins og beiddi Þorsteinn Atla að hann færi til starfs með þeim og hefði pál og reku. Hann gerði svo.
Og er þeir koma til búðartóftanna þá tóku þeir til starfs allir og færðu út veggina. Veðrið var heitt af sólu. Og er þeir höfðu út fært veggina þá settist Þorsteinn niður og Austmaður í búðartóftina og sofnaði Þorsteinn og lét illa í svefni. Austmaður sat hjá honum og lét hann njóta draums síns. Og er hann vaknaði var honum erfitt orðið.
Austmaður spurði hvað hann hefði dreymt er hann lét svo illa í svefni.
Þorsteinn svaraði: "Ekki er mark að draumum."
Og er þeir riðu heim um kveldið þá spyr Austmaður hvað Þorstein hefði dreymt.
Þorsteinn svarar: "Ef eg segi þér drauminn þá skaltu ráða hann sem hann er til."
Austmaður kveðst á það hætta mundu.
Þorsteinn mælti þá: "Það dreymdi mig að eg þóttist heima vera að Borg og úti fyrir karldyrum og sá eg upp á húsin og á mæninum álft eina væna og fagra og þóttist eg eiga og þótti mér allgóð. Þá sá eg fljúga ofan frá fjöllunum örn mikinn. Hann fló hingað og settist hjá álftinni og klakaði við hana blíðlega og hún þótti mér það vel þekkjast. Þá sá eg að örninn var svarteygur og járnklær voru á honum. Vasklegur sýndist mér hann. Því næst sá eg fljúga annan fugl af suðurátt. Sá fló hingað til Borgar og settist á húsin hjá álftinni og vildi þýðast hana. Það var og örn mikill. Brátt þótti mér sá örninn er fyrir var ýfast mjög er hinn kom til og þeir börðust snarplega og lengi og það sá eg að hvorumtveggja blæddi. Og svo lauk þeirra leik að sinn veg hné hvor þeirra af húsmæninum og voru þá báðir dauðir en álftin sat eftir hnipin mjög og dapurleg. Og þá sá eg fljúga fugl úr vestri. Það var valur. Hann settist hjá álftinni og lét blítt við hana og síðan flugu þau í brott bæði samt í sömu átt og þá vaknaði eg. Og er draumur þessi ómerkilegur," segir hann, "og mun vera fyrir veðrum að þau mætast í lofti úr þeim áttum er mér þóttu fuglarnir fljúga."
Austmaður segir: "Ekki er það mín ætlan," segir hann, "að svo sé."
Þorsteinn mælti: "Ger af drauminum slíkt er þér sýnist líklegast og lát mig heyra."
Austmaður mælti: "Fuglar þeir munu vera stórra manna fylgjur en húsfreyja þín er eigi heil og mun hún fæða meybarn frítt og fagurt og munt þú unna því mikið. En göfgir menn munu biðja dóttur þinnar úr þeim áttum sem þér þóttu ernirnir fljúga að og leggja á hana ofurást og berjast of hana og látast báðir af því efni. Og því næst mun hinn þriðji maður biðja hennar úr þeirri átt er valurinn fló að og þeim mun hún gift vera. Nú hefi eg þýddan draum þinn. Eg hygg eftir mun ganga."
Þorsteinn svarar: "Illa er draumur ráðinn og óvingjarnlega," sagði hann, "og munt þú ekki drauma ráða kunna."
Austmaður svarar: "Þú munt að raun um komast hversu eftir gengur."
Þorsteinn lagði fæð á Austmanninn og fór hann á brott um sumarið og er hann nú úr sögunni.
3
Um sumarið bjóst Þorsteinn til þings og mælti til Jófríðar húsfreyju áður hann fór heiman: "Svo er háttað," segir hann, "að þú ert með barni og skal það barn út bera ef þú fæðir meybarn en upp fæða ef sveinn er."
Og það var þá siðvandi nokkur er land var allt alheiðið að þeir menn er félitlir voru en stóð ómegð mjög til handa létu út bera börn sín og þótti þó illa gert ávallt.
Og er Þorsteinn hafði þetta mælt þá svarar Jófríður: "Þetta er óþínslega mælt," segir hún, "slíkur maður sem þú ert og mun þér eigi sýnast þetta að láta gera svo auðigur maður sem þú ert."
Þorsteinn svarar: "Veist þú skaplyndi mitt," segir hann, "að eigi mun hlýðisamt verða ef af er brugðið."
Síðan reið hann til þings en Jófríður fæddi meðan meybarn ákafa fagurt. Konur vildu það bera að henni en hún kvað þess litla þörf og lét þangað kalla smalamann sinn er Þorvarður hét og mælti hún: "Hest minn skaltu taka og leggja söðul á og færa barn þetta vestur í Hjarðarholt Þorgerði Egilsdóttur og bið hana upp fæða með leynd svo að Þorsteinn verði ei var við. Og þeim ástaraugum renni eg til barns þessa að víst eigi nenni eg að það sé út borið. En hér eru þrjár merkur silfurs er þú skalt hafa að verkkaupi. En Þorgerður skal fá þér fari vestur þar og vist um haf."
Þorvarður gerði sem hún mælti. Síðan reið hann vestur í Hjarðarholt með barnið og fékk Þorgerði í hendur en hún lét upp fæða landseta sína er bjuggu inn á Leysingjastöðum í Hvammsfirði. En hún tók Þorvarði fari norður í Steingrímsfirði í Skeljavík og vist of haf og fór hann þar utan og er hann nú úr sögunni.
Og er Þorsteinn kom heim af þingi þá segir Jófríður honum að barnið er út borið sem hann hafði fyrir mælt en smalamaður var í brott hlaupinn og stolið í brott hesti hennar.
Þorsteinn kvað hana hafa vel gert og fékk sér smalamann annan.
Nú liðu svo sex vetur að þetta varð ekki víst. Og þá reið Þorsteinn til heimboðs vestur í Hjarðarholt til Ólafs pá mags síns Höskuldssonar er þá þótti vera með mestri virðingu allra höfðingja vestur þar. Þorsteini var þar vel fagnað sem líklegt var.
Og á einnhvern dag að veislunni er það sagt að Þorgerður sat á tali við Þorstein bróður sinn í öndvegi en Ólafur átti tal við aðra menn. En yfir gegnt þeim á bekkinum sátu meyjar þrjár.
Þá mælti Þorgerður: "Hversu líst þér bróðir á meyjarnar þessar er hér sitja gegnt okkur?"
Hann svarar: "Allvel," segir hann, "og er þó ein fegurst miklu og hefir hún vænleik Ólafs en hvíti og yfirbragð vort Mýramanna."
Þorgerður svarar: "Víst er það satt er þú segir bróðir að hún hefir hvíti og yfirbragð vort Mýramanna en ei vænleik Ólafs pá því að hún er eigi hans dóttir."
"Hversu má það vera," segir Þorsteinn, "en þó sé hún þín dóttir?"
Hún svarar: "Með sannindum að segja þér frændi," kvað hún, "þá er þessi þín dóttir en eigi mín, hin fagra mær" og segir honum síðan allt sem farið hafði og biður hann fyrirgefa sér og konu sinni þessi afbrigði.
Þorsteinn mælti: "Ekki kann eg ykkur að ásaka um þetta og veltur þangað sem vera vill um flesta hluti og hafið þið vel yfir slétt vanhyggju mína. Líst mér svo á mey þessa að mér þykir mikil gifta í að eiga jafnfagurt barn. Eða hvað heitir hún?"
"Helga heitir hún," segir Þorgerður.
"Helga hin fagra," segir Þorsteinn. "Nú skalt þú búa ferð hennar heim með mér."
Hún gerði svo. Þorsteinn var þaðan út leiddur með góðum gjöfum og reið Helga heim með honum og fæddist þar upp með mikilli virðing og ást af föður og móður og öllum frændum.
4
Þenna tíma bjó uppi á Hvítársíðu á Gilsbakka Illugi svarti Hallkelsson Hrosskelssonar. Móðir Illuga var Þuríður dylla dóttir Gunnlaugs ormstungu. Illugi var annar mestur höfðingi í Borgarfirði en Þorsteinn Egilsson. Illugi svarti var stóreignamaður og harðlyndur mjög og hélt vel vini sína. Hann átti Ingibjörgu dóttur Ásbjarnar Harðarsonar úr Örnólfsdal. Móðir Ingibjargar var Þorgerður dóttir Miðfjarðar-Skeggja.
Börn Ingibjargar og Illuga voru mörg en fá koma við þessa sögu. Hermundur hét son þeirra en annar Gunnlaugur. Báðir voru þeir efnilegir menn og þá frumvaxta.
Svo er sagt frá Gunnlaugi að hann var snemmendis bráðger, mikill og sterkur, ljósjarpur á hár og fór allvel, svarteygur og nokkuð nefljótur og skapfelligur í andliti, miðmjór og herðimikill, kominn á sig manna best, hávaðamaður mikill í öllu skaplyndi og framgjarn snemmendis og við allt óvæginn og harður og skáld mikið og heldur níðskár og kallaður Gunnlaugur ormstunga.
Hermundur var þeirra vinsælli og hafði höfðingjabragð á sér.
Og er Gunnlaugur var tólf vetra gamall bað hann föður sinn fararefna og kvaðst hann vilja fara utan og sjá sið annarra manna. Illugi bóndi tók því seinlega, kvað hann eigi mundu þykja góðan í öðrum löndum er hann þóttist trautt mega semja við hann þar heima sem hann vildi.
Og einnhvern morgun var það alllitlu síðar að Illugi bóndi gekk út snemma og sá að útibúr hans var opið og voru lagðir út vörusekkar nokkurir á hlaðið sex og þar lénur með. Hann undraðist þetta mjög.
Þar gekk þá að maður og leiddi fjögur hross og var þar Gunnlaugur son hans og mælti: "Eg hefi sekkana út lagið," segir hann.
Illugi spyr hví hann gerði svo. Hann segir að það skyldi vera fararefni hans.
Illugi mælti: "Engi ráð skalt þú taka af mér og fara hvergi fyrr en eg vil" og kippti inn aftur vörusekkunum.
Gunnlaugur reið þá í brott þaðan og kom um kveldið ofan til Borgar og bauð Þorsteinn bóndi honum þar að vera og það þiggur hann. Gunnlaugur segir Þorsteini hversu farið hafði með þeim feðgum. Þorsteinn bað hann þar vera þeim stundum sem hann vildi og þar var hann þau misseri og nam lögspeki að Þorsteini og virðist öllum mönnum þar vel til hans.
Jafnan skemmtu þau Helga sér að tafli og Gunnlaugur. Lagði hvort þeirra góðan þokka til annars bráðlega sem raunir bar á síðan. Þau voru mjög jafnaldrar.
Helga var svo fögur að það er sögn fróðra manna að hún hafi fegurst kona verið á Íslandi. Hár hennar var svo mikið að það mátti hylja hana alla og svo fagurt sem gull barið og engi kostur þótti þá þvílíkur sem Helga hin fagra í öllum Borgarfirði og víðara annars staðar.
Og einhvern dag er menn sátu í stofu að Borg þá mælti Gunnlaugur til Þorsteins: "Einn er sá hlutur í lögum, er þú hefir eigi kennt mér, að fastna mér konu."
Þorsteinn segir: "Það er lítið mál" og kenndi honum atferli.
Þá mælti Gunnlaugur: "Nú skalt þú vita hvort mér hafi skilist og mun eg nú taka í hönd þér og láta sem eg festi mér Helgu dóttur þína."
Þorsteinn segir: "Þarfleysi ætla eg það vera," segir hann.
Gunnlaugur þreifaði þá þegar í hönd honum og mælti: "Veit mér nú þetta," segir hann.
"Ger sem þú vilt," segir Þorsteinn, "en það skulu þeir vita er hjá eru staddir að þetta skal vera sem ómælt og þessu skulu engi undirmál fylgja."
Síðan nefndi Gunnlaugur sér votta og fastnaði sér Helgu og spurði síðan hvort þá nætti svo nýta. Hann kvað svo vera mega og varð mönnum mikið gaman að þessu, þeim er við voru staddir.
5
Önundur hét maður er bjó suður að Mosfelli. Hann var auðmaður hinn mesti og hafði goðorð suður þar um nesin. Hann var kvongaður maður og hét Geirný kona hans, Gnúpsdóttir, Molda-Gnúpssonar er nam suður Grindavík.
Þeirra synir voru þeir Hrafn og Þórarinn og Eindriði. Allir vooru þeir efnilegir menn en þó var Hrafn fyrir þeim í hvívetna. Hann var mikill maður og sterkur, manna sjálegastur og skáld gott og er hann var mjög rosknaður þá fór hann landa á milli og virðist hvervetna vel þar sem hann kom.
Þá bjó suður á Hjalla í Ölfusi þeir Þóroddur hinn spaki Eyvindarson og Skafti son hans er þá var lögsögumaður á Íslandi. Móðir Skafta var Rannveig dóttir Gnúps Molda-Gnúpssonar og voru þeir systrasynir Skafti og Önundarsynir. Var þar vinátta mikil með frændsemi.
Þá bjó út að Rauðamel Þorfinnur Sel-Þórisson og átti sjö sonu og voru allir efnilegir menn. Þeir hétu svo: Þorgils, Eyjólfur og Þórir, og voru þeir mestir menn út þangað. Og þessir menn er nú eru nefndir voru allir uppi á einn tíma.
Og þessu nær urðu þau tíðindi er best hafa orðið hér á Íslandi að landið varð allt kristið og allt fólk hafnaði fornum átrúnaði.
Gunnlaugur ormstunga, er áður var frá sagt, var nú ýmist að Borg með Þorsteini eða Illuga föður sínum á Gilsbakka sex vetur og var hann þá átján vetra og samdist þá mikið með þeim feðgum.
Maður hét Þorkell svarti. Hann var heimamaður Illuga og náfrændi og hafði þar upp vaxið. Honum tæmdist arfur norður í Vatnsdal í Ási og beiddi hann Gunnlaug fara með sér. Og hann gerði svo og riðu norður tveir saman í Ás og fengu féið, og greiddu þeir féið af höndum er varðveitt höfðu með atgöngu Gunnlaugs.
Og er þeir riðu norðan gistu þeir í Grímstungum að auðigs bónda er þar bjó. Og um morguninn tók smalamaður hest Gunnlaugs og var þá sveittur mjög er þeir fengu. Gunnlaugur laust smalamanninn í óvit. Bóndi vildi eigi svo búið hafa og beiddi bóta fyrir. Gunnlaugur bauð að gjalda bónda mörk. Bónda þótti það of lítið.
Gunnlaugur kvað þá vísu:
Mörk bauð eg mundangs sterkum
mannni, tyggja ranna.
Grásíma skaltu góma
glóðspýtis það nýta.
Iðrast muntu ef yðrum
allráðr flóða úr sjóði
lætr eyðanda líða
linns samlagar kindar.
Þessi varð sætt þeirra sem Gunnlaugur bauð og riðu þeir suður heim við svo búið.
Og litlu síðar beiddi Gunnlaugur föður sinn fararefna í annað sinn.
Illugi segir: "Nú skal vera sem þú vilt," segir hann. "Hefir þú nú heldur samið þig úr því sem var."
Reið Illugi þá heiman skjótt og keypti skip hálft til handa Gunnlaugi, er uppi stóð í Gufuárósi, að Auðuni festargram. Þessi Auðun vildi eigi utan flytja sonu Ósvífs hins spaka eftir víg Kjartans Ólafssonar sem segir í Laxdæla sögu og varð það þó síðar en þetta.
Og er Illugi kom heim þá þakkaði Gunnlaugur honum vel. Þorkell svarti réðst til ferðar með Gunnlaugi og var fluttur varnaður þeirra til skips en Gunnlaugur var að Borg meðan þeir bjuggust og þótti glaðara að tala við Helgu en vera í starfi með kaupmönnum.
Einnhvern dag spurði Þorsteinn Gunnlaug ef hann vildi ríða til hrossa með honum upp í Langavatnsdal. Gunnlaugur kvaðst það vilja.
Nú ríða þeir tveir saman þar til er þeir koma til selja Þorsteins er heita á Þorgilsstöðum og voru þar stóðhross er Þorsteinn átti fjögur saman og voru rauð að lit. Hestur var allvænlegur og lítt reyndur. Þorsteinn bauð að gefa Gunnlaugi hrossin en hann kvaðst eigi hrossa þurfa er hann ætlaði af landi.
Og þá riðu þeir til annarra stóðhrossa. Var þar hestur grár með fjórum merum og var sá bestur í Borgarfirði og bauð Þorsteinn að gefa þann Gunnlaugi.
Hann svarar: "Eigi vil eg þessi heldur en hin. Eða hví býður þú mér eigi það er eg vil þiggja?"
"Hvað er það?" segir Þorsteinn.
Gunnlaugur mælti: "Helga hin fagra dóttir þín."
Þorsteinn svarar: "Ei mun svo skjótt ráðast," segir hann og tók annað mál og riðu heimleiðis ofan með Langá.
Þá mælti Gunnlaugur: "Vita vil eg," segir hann, "hverju þú vilt svara mér um bónorðið."
Þorsteinn svarar: "Ekki sinni eg hégóma þínum," segir hann.
Gunnlaugur mælti: "Þetta er alhugi minn en eigi hégómi."
Þorsteinn svarar: "Vita skyldir þú fyrst hvað þú vildir. Ertu ei ráðinn til utanferðar og lætur þó sem þú skulir kvongast? Er það ekki jafnræði með ykkur Helgu meðan þú ert svo óráðinn og mun því ekki verða á litið."
Gunnlaugur mælti: "Hvar til ætlar þú um gjaforð dóttur þinnar ef þú vilt eigi gifta syni Illuga svarta, eða hvar eru þeir í Borgarfirði er meira háttar séu en hann?"
Þorsteinn svarar: "Ekki fer eg í mannjöfnuð," segir hann, "en værir þú slíkur maður sem hann þá mundi þér ei frá vísað."
Gunnlaugur mælti: "Hverjum viltu heldur gifta dóttur þína en mér?"
Þorsteinn svarar: "Mart er hér gott mannval. Þorfinnur að Rauðamel á sjö sonu og alla vel mannaða."
Gunnlaugur svarar: "Hvorgi þeirra Önundar né Þorfinns er jafnmenni föður míns því að þig skortir sýnt við hann. Eða hvað hefir þú í móti því er hann deildi kappi við Þorgrím goða Kallaksson á Þórnessþingi og við sonu hans og hafði einn það er við lá?"
Þorsteinn svarar: "Eg stökkti í brott Steinari syni Önundar sjóna og þótti það heldur mikilræði."
Gunnlaugur svarar: "Egils naustu að því, föður þíns, enda mun þar fám bóndum vel endast að synja mér mægðar."
Þorsteinn svarar: "Hafðu í frammi kúgan við þá uppi við fjöllin en það kemur þér fyrir ekki hér út á Mýrunum."
Um kveldið koma þeir heim. Og um morguninn ríður Gunnlaugur upp á Gilsbakka og bað föður sinn ríða til kvonbæna með sér út til Borgar.
Illugi svarar: "Þú ert óráðinn maður þar sem þú ert ráðinn til utanferðar en lætur nú sem þú skulir starfa í kvonbænum og veit eg að slíkt er ekki við skaplyndi Þorsteins."
Gunnlaugur svarar: "Eg ætla þó utan allt eins og líkar mér ekki utan þú fylgir þessu."
Síðan reið Illugi heiman með tólfta mann ofan til Borgar og tók Þorsteinn vel við honum.
Um morguninn snemma ræddi Illugi til Þorsteins: "Eg vil tala við þig."
Þorsteinn svarar: "Göngum upp á borgina og tölum þar."
Og svo gerðu þeir. Gunnlaugur gekk með þeim.
Þá mælti Illugi: "Gunnlaugur frændi minn kveðst hafa vakið bónorð við þig fyrir sína hönd að biðja Helgu dóttur þinnar. En nú vil eg vita hvern stað eiga skal málið. Er þér kunnig ætt hans og fjáreign vor. Skal hvorki til spara af vorri hendi staðfestu né mannaforráð ef þá er nær en áður."
Þorsteinn svarar: "Það eitt finn eg Gunnlagi að mér þykir hann vera óráðinn," segir hann, "en ef hann væri þér líkur í skaplyndi þá mundi eg lítt seinka."
Illugi svarar: "Þetta mun okkur verða að vinslitum ef þú synjar okkur feðgum jafnræðis."
Þorsteinn svarar: "Fyrir þín orð," segir hann, "og okkra vingan þá skal Helga vera heitkona Gunnlaugs en eigi festarkona og bíða þrjá vetur. En Gunnlaugur skal fara utan og skapa sig eftir góðra manna siðum en eg skal laus allra mála ef hann kemur ei svo út eða mér virðist eigi skapferði hans."
Og við þetta skilja þeir. Ríður Illugi heim en Gunnlaugur til skips. Og er þeim gaf byr létu þeir í haf og komu skipi sínu norður við Noreg og sigldu inn eftir Þrándheimi til Niðaróss og lágu þar í lægi og skipuðu upp.
6
Þenna tíma réð fyrir Noregi Eiríkur jarl Hákonarson og Sveinn bróðir hans. Eiríkur jarl hafði þá aðsetu inn á Hlöðum að föðurleifð sinni og var ríkur höfðingi. Skúli Þorsteinsson var þá með jarli og var hirðmaður hans og vel metinn.
Það er frá sagt að þeir Gunnlaugur og Auðun festargramur gengu tólf menn saman inn á Hlaðir. Gunnlaugur var svo búinn að hann var í grám kyrtli og í hvítum leistbrókum. Sull hafði hann á fæti niðri á ristinni. Freyddi úr upp blóð og vogur er hann gekk við. Og með þeim búningi gekk hann fyrir jarlinn og þeir Auðun og kvöddu hann vel. Jarl kenndi Auðun og spyr hann tíðinda af Íslandi en Auðun sagði slík sem voru.
Jarl spyr Gunnlaug hver hann væri en hann sagði honum nafn sitt og ætt.
Jarl mælti: "Skúli Þorsteinsson," segir hann, "hvað manna er þessi á Íslandi?"
"Herra," segir hann, "takið honum vel. Hann er hins besta manns son á Íslandi, Illuga svarta af Gilsbakka, og fóstbróðir minn."
Jarl mælti: "Hvað er fæti þínum Íslendingur?"
"Sullur er á herra," sagði hann.
"Og gekkst þú þó ekki haltur?"
Gunnlaugur svarar: "Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir."
Þá mælti hirðmaður jarls er Þórir hér: "Þessi rembist mikið, Íslendingurinn, og væri vel að vér freistuðum hans nokkuð."
Gunnlaugur leit við honum og mælti:
Hirðmaðr er einn,
sá er einkar meinn
Trúið honum vart,
hann er illr og svartr.
Þá vildi Þórir grípa til exar.
Jarl mælti: "Lát vera kyrrt," segir hann, "ekki skulu menn gefa að slíku gaum. Eða hve gamall maður ertu Íslendingur?"
Gunnlaugur svarar: "Eg em nú átján vetra," segir hann.
"Það læt eg um mælt," segir jarl, "að þú verðir ei annarra átján."
Gunnlaugur mælti og heldur lágt: "Bið mér öngra forbæna," segir hann, "en bið þér heldur."
Jarl mælti: "Hvað sagðir þú nú Íslendingur?"
Gunnlaugur svarar: "Svo sem mér þótti vera eiga að þú bæðir mér öngra forbæna en bæðir sjálfum þér hallkvæmri bæna."
"Hverra þá?" segir jarl.
"Að þú fengir ei þvílíkan dauðdaga sem Hákon jarl faðir þinn."
Jarl setti svo rauðan sem blóð og bað taka fól þetta skjótt.
Þá gekk Skúli fyrir jarl og mælti: "Gerið fyrir mín orð herra og gefið manninum grið og fari hann á brott sem skjótast."
Jarl mælti: "Verði hann á brottu sem skjótast ef hann vill griðin hafa og komi aldrei í mitt ríki síðan."
Þá gekk Skúli út með Gunnlaugi og ofan á bryggjur. Þar var Englandsfar albúið til útláts. Og þá tók Skúli Gunnlaugi far og Þorkatli frænda hans. En Gunnlaugur fékk Auðuni skip sitt til varðveislu og fé sitt það er hann hafði ei með sér.
Nú sigla þeir Gunnlaugur í Englandshaf og komu um haustið suður við Lundúnabryggjur og réðu þar til hlunns skipi sínu.
7
Þá réð fyrir Englandi Aðalráður konungur Játgeirsson og var góður höfðingi. Hann sat þenna vetur í Lúndúnaborg.
Ein var þá tunga á Englandi sem í Noregi og í Danmörku. En þá skiptust tungur í Englandi er Vilhjálmur bastarður vann England. Gekk þaðan af í Englandi valska er hann var þaðan ættaður.
Gunnlaugur gekk bráðlega fyrir konung og kvaddi hann vel og virðulega.
Konungur spyr hvaðan af löndum hann væri.
Gunnlaugur segir sem var "en því hefi eg sótt á yðvarn fund herra að eg hefi kvæði ort um yður og vildi eg að þér hlýdduð kvæðinu."
Konungur kvað svo vera skyldu. <p< gunnlaugur="" flutti="" fram="" kvæðið="" vel="" og="" skörulega="" en="" þetta="" er="" stefið="" í:="" <p=""> </p<>
Her sést allr við örva
Englands sem guðs engil.
Ætt lýtr grams og gumna
gunnbráðs Aðalráði.
Konungur þakkaði honum kvæðið og gaf honum að bragarlaunum skarlatsskikkju skinndregna hinum bestum skinnum og hlaðbúna í skaut niður og gerði hann hirðmann sinn. Og var Gunnlaugur með konungi um veturinn og virðist vel.
Og einn dag um morguninn snemnma þá mætti Gunnlaugur þremur mönnum á stræti einu og nefndist sá Þórormur er fyrir þeim var. Hann var mikill og sterkur og furðu torveldlegur.
Hann mælti: "Norðmaður," segir hann, "sel mér fé nokkuð að láni."
Gunnlaugur svarar: "Ekki mun það ráðlegt að selja fé sitt ókunnum mönnum."
Hann svarar: "Eg skal gjalda þér að nefndum degi."
"Þá skal á það hætta," segir Gunnlaugur.
Síðan seldi hann honum féið.
Og litlu síðar fann Gunnlaugur konunginn og segir honum fjárlánið.
Konungur svarar: "Nú hefir lítt til tekist. Þessi er hinn mesti ránsmaður og víkingur og eig ekki við hann en eg skal fá þér jafnmikið fé."
Gunnlaugur svarar: "Illa er oss þá farið," segir hann, "hirðmönnum yðrum, göngum upp á saklausa menn en láta slíka sitja yfir voru og skal það aldrei verða."
Og litlu síðar hitti hann Þórorm og heimti féið að honum en hann kvaðst eigi gjalda mundu.
Gunnlaugur kvað þá vísu þessa:
Meðalráð er þér Móði
málma galdrs að halda,
att hafið þér við prettum
oddrjóð, fyrir mér hoddum.
Vita máttu hitt að eg heiti,
hér sé eg á því færi,
það fékkst nafn af nökkvi,
naðrstunga, mér ungum.
"Nú vil eg bjóða þér lög," segir Gunnlaugur, "að þú gjalt mér fé mitt eða gakk á hólm við mig ella á þriggja nátta fresti."
Þá hló víkingurinn og mælti: "Til þess hefir engi orðið fyrri en þú að skora mér á hólm svo skarðan hlut sem margur hefir fyrir mér borið og em eg þessa albúinn."
Og við það skildu þeir Gunnlaugur að sinni.
Gunnlaugur segir konungi svo búið.
Hann svarar: "Nú er komið í allóvænt efni. Þessi maður deyfir hvert vopn. Nú skaltu mínum ráðum fram fara og er hér sverð er eg vil gefa þér og með þessu skaltu vega en sýn honum annað."
Gunnlaugur þakkaði konungi vel.
Og er þeir voru til hólms búnir þá spyr Þórormur hverninn sverð það væri er hann hafði. Gunnlaugur sýnir honum og bregður en hafði lykkju á meðalkafla á konungsnaut og dregur á hönd sér.
Berserkurinn mælti er hann sá sverðið: "Ekki hræðist eg það sverð," segir hann og hjó til Gunnlaugs með sverði og af honum mjög svo skjöldinn allan. Gunnlaugur hjó þegar í mót með konungsnaut en berserkurinn stóð hlífarlaus fyrir og hugði að hann hefði hið sama vopn og hann sýndi en Gunnlaugur hjó hann þegar banahögg.
Konungur þakkaði honum verkið og af þessu fékk hann mikla frægð í Englandi og víða annars staðar.
Um vorið er skip gengu milli landa þá bað Gunnlaugur Aðalráð konung orlofs að sigla nokkuð. Konungur spyr hvað hann vildi þá.
Gunnlaugur svarar: "Eg vildi efna það sem eg hefi heitið" og kvað vísu þessa:
Koma skal eg víst að vitja
vígsdöglinga þriggja,
því hef eg hlutvöndum heitið,
hjarls og tveggja jarla.
hverfka eg aftr áðr arfi,
auðveitir gefr rauðan
ormabeð fyrir ermar,
odd-Gefnar mér stefni.
"Svo skal og vera skáld," segir konungur og gaf honum gullhring er stóð sex aura "en því skaltu heita mér," segir konungur, "að koma aftur til mín að öðru hausti fyrir því að eg vil ei láta þig fyrir sakir íþróttar þinnar."
8
Síðan siglir Gunnlaugur af Englandi með kaupmönnum norður til Dyflinnar. Þá réð fyrir Írlandi Sigtryggur konungur silkiskegg, son Ólafs kvarans og Kormlaðar drottningar. Hann hafði þá skamma stund ráðið ríkinu. Gunnlaugur gekk þá fyrir konung og kvaddi hann vel og virðulega. Konungur tók honum sæmilega.
Gunnlaugur mælti: "Kvæði hefi eg ort um yður og vildi eg hljóð fá."
Konungur svarar: "Ekki hafa menn til þess orðið fyrri að færa mér kvæði og skal víst hlýða."
Gunnlaugur kvað þá drápuna og er þetta stefið í:
Elr sváru skæ
Sigtryggr við hræ.
Og þetta er þar:
Kann eg máls of skil
hvern eg mæra vil
konungmanna kon,
hann er Kvarans son.
Muna gramr við mig,
venr hann gjöfli sig,
þess mun grepp vara,
gullhring spara.
Segi siklingr mér
ef hann heyri sér
dýrlegra brag,
það er drápu lag.
Konungur þakkaði honum kvæðið og kallaði til sín féhirði sinn og mælti svo: "Hverju skal launa kvæðið?"
Hann svarar: "Hverju viljið þér herra?" segir hann.
"Hversu er launað," segir konungur, "ef eg gef honum knörru tvo?"
Féhirslumaður svarar: "Of mikið er það herra," segir hann. "Aðrir konungar gefa að bragarlaunum gripi góða, sverð góð eða gullhringa góða."
Konungur gaf honum klæði sín af nýju skarlati, kyrtil hlaðbúinn og skikkju með ágætum skinnum og gullhring er stóð mörk. Gunnlaugur þakkaði honum vel og dvaldist þar skamma stund og fór þaðan til Orkneyja.
Þá réð fyrir Orkneyjum Sigurður jarl Hlöðvisson. Hann var vel til íslenskra manna. Gunnlaugur kvaddi jarl vel og kveðst hafa að færa honum kvæði. Jarl kvaðst hlýða vilja kvæði hans, svo stórra manna sem hann var á Íslandi. Gunnlaugur flutti kvæðið og var það flokkur og vel ortur. Jarl gaf honum breiðöxi, sifurrekna alla þar er bæta þótti, að kvæðislaunum og bauð honum með sér að vera.
Gunnlaugur þakkaði honum gjöfina og svo boð hið sama en kveðst verða að fara austur til Svíþjóðar og gekk síðan á skip með kaupmönnum þeim er sigldu til Noregs og komu um haustið austur við Konungahellu. Þorkell frændi hans fylgdi honum jafnan. Úr Konungahellu fengu þeir sér leiðtoga upp í Gautland hið vestra og komu fram í kaupstað þeim er í Skörum heitir.
Þar réð fyrir jarl sá er Sigurður hét og var við aldur. Gunnlaugur gekk fyrir hann og kvaddi hann vel og kvaðst kvæði hafa ort um hann. Jarl gaf gott hljóð til. Gunnlaugur kvað kvæðið og var það flokkur. Jarl þakkaði honum og launaði honum vel og bauð honum með sér að vera um veturinn.
Sigurður jarl hafði jólaboð mikið um veturinn. Og affangadag jóla koma þar sendimenn Eiríks jarls norðan af Noregi tólf saman. Þeir fóru með gjöfum til Sigurðar jarls. Jarlinn fagnaði þeim vel og skipaði þeim um jólin hjá Gunnlaugi. Þar voru ólæti mikil.
Gautar ræddu um að engi jarl væri meiri og frægri en Sigurður. Noregsmönnum þótti Eiríkur jarl miklu framar og um þetta þrættu þeir og tóku Gunnlaug til úrskurðarmanns hvorirtveggju um þetta mál.
Gunnlaugur kvað þá vísu þessa:
Segið ér frá jarli,
oddfeimu stafir, þeima,
hann hefir litnar hávar,
hár karl er sá, bárur.
Sigreynir hefir sénar
sjálfr í miklu gjálfri
austur fyrir unnar hesti
Eiríkr bláar fleiri.
Hvorirtveggju undu vel við úrskurðinn en betur Noregsmenn. Sendimenn fóru þaðan eftir jólin með fégjöfum er Sigurður jarl sendi Eiríki jarli. Sögðu þeir nú Eiríki jarli úrskurðinn Gunnlaugs. Jarli þótti Gunnlaugur hafa sýnt við sig einurð og vináttu og lét þau orð um fara að Gunnlaugur skyldi þar friðland hafa í hans ríki. Það frétti Gunnlaugur síðan hvað jarl hafði um mælt.
Sigurður jarl fékk Gunnlaugi leiðtoga austur í Tíundaland í Svíþjóð sem hann beiddi.
9
Þenna tíma réð fyrir Svíþjóð Ólafur konungur sænski son Eiríks konungs sigursæla og Sigríðar hinnar stórráðu dóttur Sköglar-Tósta. Hann var ríkur konungur og ágætur, metnaðarmaður mikill.
Gunnlaugur kom til Uppsala nær þingi þeirra Svía um vorið og er hann náði konungs fundi kvaddi hann konunginn. Hann tók honum vel og spyr hver hann væri. Hann kvaðst vera Íslandsmaður. Þar var þá með Ólafi konungi Hrafn Önundarson.
Konungur mælti: "Hrafn," segir hann, "hvað manna er hann á Íslandi?"
Maður stóð upp af hinum óæðra bekk, mikill og vasklegur, gekk fyrir konung og mælti: "Herra," segir hann, "hann er hinnar bestu ættar og sjálfur hinn vaskasti maður."
"Fari hann þá og sitji hjá þér," sagði konungur.
Gunnlaugur mælti: "Kvæði hefi eg að færa yður," sagði hann, "og vildi eg að þér hlýdduð og gæfuð hljóð til."
"Gangið fyrst og sitjið," sagði konungur. "Ekki er nú tóm til yfir kvæðum að sitja."
Þeir gerðu svo. Tóku þeir þá tal með sér Gunnlaugur og Hrafn. Sagði hvor öðrum frá ferðum sínum. Hrafn kvaðst farið hafa áður um sumarið af Íslandi til Noregs og öndverðan vetur austur til Svíþjóðar. Þar gerist brátt vel með þeim.
Og einn dag er liðið var þingið voru þeir báðir fyrir konungi Gunnlaugur og Hrafn.
Þá mælti Gunnlaugur: "Nú vildi eg herra," segir hann, "að þér heyrðuð kvæðið."
"Það má nú," segir hann.
"Nú vil eg flytja kvæði mitt herra," segir Hrafn.
"Það má vel," segir hann.
Þá vil eg flytja fyrr kvæði mitt herra," segir Gunnlaugur, "ef þér viljið svo."
"Eg á fyrr að flytja herra," segir Hrafn, "er eg kom fyrr til yðvar."
Gunnlaugur mælti: "Hvar komu feður okkrir þess," segir hann, "að minn faðir væri eftirbátur þíns föður, hvar nema alls hvergi? Skal og svo með okkur vera."
Hrafn svarar: "Gerum þá kurteisi," segir hann, "að vér færum þetta ei í kappmæli og látum konung ráða."
Konungur mælti: "Gunnlaugur skal fyrri flytja því að honum eirir illa ef hann hefir ei sitt mál."
Þá kvað Gunnlaugur drápuna er hann hafði orta um Ólaf konung.
Og er lokið var drápunni þá mælti konungur: "Hrafn," sagði hann, "hversu er kvæðið ort?"
"Vel herra," sagði hann. "Það er stórort kvæði og ófagurt og nakkvað stirðkveðið sem Gunnlaugur er sjálfur í skaplyndi."
"Nú skaltu flyta þitt kvæði Hrafn," segir konungur.
Hann gerir svo.
Og er lokið var þá mælti konungur: "Gunnlaugur," segir hann, "hversu er kvæði þetta ort?"
Gunnlaugur svarar: "Vel herra," segir hann. "Þetta er fagurt kvæði sem Hrafn er sjálfur að sjá og yfirbragðslítið. Eða hví ortir þú flokk um konunginn," segir hann, "eða þótti þér hann ei drápunnar verður?"
Hrafn svarar: "Tölum þetta ei lengur. Til mun verða tekið þótt síðar sé," segir hann og skildu nú við svo búið.
Litlu síðar gerðist Hrafn hirðmaður Ólafs konungs og bað hann orlofs til brottferðar. Konungur veitti honum það.
Og er Hrafn var til brottferðar búinn þá mælti hann til Gunnlaugs: "Lokið skal nú okkarri vináttu fyrir því að þú vildir hræpa mig hér fyrir höfðingjum. Nú skal eg einhverju sinni eigi þig minnur vanvirða en þú vildir mig hér."
Gunnlaugur svarar: "Ekki hryggja mig hót þín," segir hann, "og hvergi munum við þess koma að eg sé minna virður en þú."
Ólafur konungur gaf Hrafni góðar gjafir að skilnaði og fór hann í brott síðan.
Hrafn fór austan um vorið og kom til Þrándheims og bjó skip sitt og sigldi til Íslands um sumarið og kom skipi sínu í Leiruvog fyrir neðan Heiði og urðu honum fegnir frændur og vinir og var hann heima þann vetur með föður sínum.
Og um sumarið á alþingi fundust þeir frændur, Skafti lögmaður og Skáld-Hrafn.
Þá mælti Hrafn: "Þitt fullting vildi eg hafa til kvonbænar við Þorstein Egilsson að biðja Helgu dóttur hans."
Skafti svarar: "Er hún eigi áður heitkona Gunnlaugs ormstungu?"
Hrafn svarar: "Er ei liðin sú stefna nú," segir hann, "sem mælt var með þeim? Enda er miklu meiri hans ofsi er hann muni nú þess gá eða geyma."
Skafti svarar: "Gerum sem þér líkar."
Síðan gengu þeir fjölmennir til búðar Þorsteins Egilssonar. Hann fagnaði þeim vel.
Skafti mælti: "Hrafn frændi minn vill biðja Helgu dóttur þinnar og er þér kunnig ætt hans og auður fjár og menning góð, frænda afli mikill og vina."
Þorsteinn svarar: "Hún er áður heitkona Gunnlaugs og vil eg halda öll mál við hann, þau sem mælt voru."
Skafti mælti: "Eru nú eigi liðnir þrír vetur er til voru nefndir með yður?"
"Já," sagði Þorsteinn, "en ei er sumarið liðið og má hann enn til koma í sumar."
Skafti svarar: "En ef hann kemur eigi til sumarlangt hverja von skum vér þá eiga þessa máls?"
Þorsteinn svarar: "Hér munum vér koma annað sumar og má þá sjá hvað ráðlegast þykir en ekki tjár nú þetta að tala lengur að sinni."
Og við það skildu þeir og riðu menn heim af þingi.
Ekki fór þetta tal leynt að Hrafn bað Helgu. Ei kom Gunnlaugur út að sumri.
Og annað sumar á alþingi fluttu þeir Skafti bónorðið ákaflega, kváðu þá Þorstein lausan allra mála við Gunnlaug.
Þorsteinn svarar: "Eg á fár dætur fyrir að sjá og vildi eg gjarna að öngum manni yrðu þær að rógi. Nú vil eg finna fyrst Illuga svarta."
Og svo gerði hann.
Og er þeir fundust þá mælti Þorsteinn: "Þykir þér eg laus allra mála við Gunnlaug son þinn?"
Illugi mælti: "Svo er víst," segir hann, "ef þú vilt. Kann eg hér nú fátt til að leggja er eg veit eigi gjörla efni sonar mín Gunnlaugs."
Þorsteinn gekk þá til Skafta og keyptu þeir svo að brúðlaup skyldi vera að veturnáttum að Borg ef Gunnlaugur kæmi eigi út á því sumri en Þorsteinn laus allra mála við Hrafn ef Gunnlaugur kæmi til og vitjaði ráðsins.
Eftir það riðu menn heim af þinginu og frestaðist tilkoma Gunnlaugs en Helga hugði illt til ráða.
10
Nú er að segja frá Gunnlaugi að hann fór af Svíþjóðu það sumar til Englands er Hrafn fór til Íslands og þá góðar gjafir af Ólafi konungi að skilnaði þeirra. Aðalráður konungur tók við Gunnlaugi allvel og var hann með honum um veturinn með góðri sæmd.
Í þenna tíma réð fyrir Danmörku Knútur hinn ríki Sveinsson og hafði nýtekið við föðurleifð sinni og heitaðist jafnan að herja til Englands fyrir því að Sveinn konungur faðir hans hafði unnið mikið ríki á Englandi áður hann andaðist vestur þar. Og í þann tíma var mikill her danskra manna vestur þar og var sá höfðingi fyrir er Hemingur hét, son Strút-Haralds jarls og bróðir Sigvalda jarls, og hélt hann það ríki undir Knút konung er Sveinn konungur hafði áður unnið.
Um vorið bað Gunnlaugur konunginn sér orlofs til brottferðar.
Hann svarar: "Ei samir þér nú að fara frá mér til slíks ófriðar sem nú horfir hér í Englandi þar sem þú ert minn hirðmaður."
Gunnlaugur svarar: "Þér skuluð ráða minn herra og gef mér orlof að sumri til brottferðar ef Danir koma eigi."
Konungur svarar: "Sjáum við þá."
Nú leið það sumar og veturinn eftir og komu Danir eigi. Og eftir mitt sumar fékk Gunnlaugur orlof til brottferðar af konungi og fór Gunnlaugur þaðan austur til Noregs og fann Eirík jarl í Þrándheimi á Hlöðum og tók jarl honum þá vel og bauð honum þá með sér að vera. Gunnlaugur þakkar honum boðið og kveðst þó vilja fara fyrst út til Íslands á vit festarmeyjar sinnar.
Jarl mælti: "Nú eru öll skip í brottu, þau er til Íslands bjuggust."
Þá mælti hirðmaður einn: "Hér lá Hallfreður vandræðaskáld í gær út undir Agðanesi."
Jarl svarar: "Svo má vera," segir hann. "Hann sigldi héðan fyrir fimm náttum."
Eiríkur jarl lét þá flytja Gunnlaug út til Hallfreðar. Hallfreður tók við honum með fagnaði og gaf þegar byr undan landi og voru vel kátir. Það var síð sumars.
Hallfreður mælti til Gunnlaugs: "Hefir þú frétt bónorðið Hrafns Önundarsonar við Helgu hina fögru?"
Gunnlaugur kveðst frétt hafa og þó ógjörla. Hallfreður segir honum slíkt sem hann vissi af og það með að margir menn mæltu það að Hrafn væri ei óröskari en Gunnlaugur.
Gunnlaugur kvað þá vísu:
Ræki eg lítt þó leiki,
létt veðr er nú, þéttan
austanvindr að öndri
andness viku þessa.
Meir sjáumk hitt, en hæru
hoddstríðandi bíðit,
orð að eg eigi verði
jafnröskr taliðr Hrafni.
Hallfreður mælti þá: "Þess þyrfti félagi að þér veitti betur málin við Hrafn en mér. Eg kom skipi mínu í Leiruvog fyrir neðan Heiði fyrir fám vetrum og átti eg að gjalda hálfa mörk silfurs húskarli Hrafns og hélt eg því fyrir honum. En Hrafn reið til vor með sex tigu manna og hjó strengina og rak skipið upp á leirur og búið við skipbroti. Varð eg þá að selja Hrafni sjálfdæmi og galt eg mörk og eru slíkar mínar að segja frá honum.
Og þá varð þeim eintalað um Helgu og lofaði Hallfreður mjög vænleik hennar.
Gunnlaugur kvað þá:
Munat háðvörum hyrjar
hríðmundaðar Þundi
hafna hörvi drifna
hlýða jörð að þýðast
því að lautsíkjar lékum
lyngs, er vorum yngri,
alnar gims á ýmsum
andnesjum því landi.
"Þetta er vel ort," segir Hallfreður.
Þeir tóku land norður á Melrakkasléttu í Hraunhöfn hálfum mánuði fyrir vetur og skipuðu þar upp.
Þórður hét maður. Hann var bóndason þar á Sléttunni. Hann gekk í glímur við þá kaupmennina og gekk þeim illa við hann. Þá varð komið saman fangi með þeim Gunnlaugi. Og um nóttina áður hét Þórður á Þór til sigurs sér. Og um daginn er þeir fundust tóku þeir til glímu. Þá laust Gunnlaugur báða fæturna undan Þórði og felldi hann mikið fall en fóturinn Gunnlaugs stökk úr liði, sá er hann stóð á, og féll Gunnlaugur þá með Þórði.
Þá mælti Þórður: "Vera má," segir hann, "að þér vegni eigi annað betur."
"Hvað þá?" segir Gunnlaugur.
"Málin við Hrafn ef hann fær Helgu hinnar vænu að veturnóttum og var eg hjá í sumar á alþingi er það réðst."
Gunnlaugur svarar öngu. Þá var vafiður fóturinn og í liðinn færður og þrútnaði allmjög.
Þeir Hallfreður riðu tólf menn saman og komu suður á Gilsbakka í Borgarfirði það laugarkveld er þeir sátu að brúðlaupinu að Borg. Illugi varð feginn Gunnlaugi syni sínum og hans förunautum. Gunnlaugur kvaðst þá þegar vilja ofan ríða til Borgar. Illugi kvað það ekki ráð og svo sýndist öllum nema Gunnlaugi en Gunnlaugur var þó ófær fyrir fótarins sakir þótt hann léti ekki á sjást og varð því ekki af ferðinni.
Hallfreður reið heim um morguninn til Hreðuvatns í Norðurárdal. Þar réð fyrir eignum þeirra Galti bróðir hans og var vaskur maður.
11
Nú er að segja frá Hrafni að hann sat að brúðlaupi sínu að Borg og er það flestra manna sögn að brúðurin væri heldur döpur, og er það satt sem mælt er að lengi man það er ungum getur og var henni nú og svo.
Það varð til nýlundu þar að veislunni að sá maður bað Húngerðar Þóroddsdóttur og Jófríðar er Svertingur hét og var Hafur-Bjarnarson Molda-Gnúpssonar og skyldu þau ráð takast um veturinn eftir jól uppi að Skáney. Þar bjó Þorkell frændi Húngerðar, son Torfa Valbrandssonar. Móðir Torfa var Þórodda systir Tungu-Odds.
Hrafn fór heim til Mosfells með Helgu konu sína. Og er þau höfðu þar skamma stund verið þá var það einn morgun áður þau risu upp að Helga vakir en Hrafn svaf og lét hann illa í svefni. Og er hann vaknaði spyr Helga hvað hann hefði dreymt.
Hrafn kvað þá vísu:
Hugðumst orms á armi
ý döggvar þér höggvinn,
væri, brúðr, í blóði
beðr þinn roðinn mínu,
knættit endr um undir
ölstafns Njörun Hrafni,
líka getr það lauka
lind, höggþyrnis binda.
Helga mælti: "Það mun eg aldrei gráta," segir hún. "Hafið þér illa svikið mig. Mun Gunnlaugur út kominn" og grét Helga þá mjög.
Og litlu síðar fluttist útkoma Gunnraugs. Helga gerðist þá svo stirð við Hrafn að hann fékk eigi haldið henni heima þar og fóru þau þá heim aftur til Borgar og nýtti Hrafn lítið af samvistum við hana.
Nú búast menn til boðs um veturinn.
Þorkell frá Skáney bauð Illuga svarta og sonum hans. Og er Illugi bóndi bjóst þá sat Gunnlaugur í stofu og bjóst ekki.
Illugi gekk til hans og mælti: "Hví býst þú ekki frændi?"
Gunnlaugur svarar: "Eg ætla eigi að fara."
Illugi mælti: "Fara skaltu víst frændi," segir hann, "og slá ekki slíku á þig að þrá eftir einni konu og lát sem þú vitir eigi og mun þig aldrei konur skorta."
Gunnlaugur gerði sem faðir hans mælti og komu þeir til boðsins og var þeim Illuga og sonum hans skipað í öndvegi en þeim Þorsteini Egilssyni og Hrafni mági hans og sveitinni brúðguma í annað öndvegi gegnt Illuga.
Konur sátu á palli og sat Helga hin fagra næst brúðinni og renndi oft augum til Gunnlaugs, og kemur þar að því sem mælt er að eigi leyna augu ef ann kona manni. Gunnlaugur var þá vel búinn og hafði þá klæðin þau hin góðu er Sigtryggur konungur gaf honum og þótti hann þá mikið afbragð annarra manna fyrir margs sakir, bæði afls og vænleiks og vaxtar.
Lítil var gleði manna að boðinu. Og þann dag er menn voru í brottbúningi þá brugðu konur göngu sinni og bjuggust til heimferðar. Gunnlaugur gekk þá til tals við Helgu og töluðu lengi.
Og þá kvað Gunnlaugur vísu:
Ormstungu varð engi
allr dagr und sal fjalla
hægr síð er Helga hin fagra
Hrafns kvonar réð nafni.
Lítt sá höldr hinn hvíti,
hjörþeys, faðir meyjar,
gefin var Eir til aura
ung, við minni tungu.
Og enn kvað hann:
Væn á eg verst að launa,
vín-Gefn, föður þínum,
fold nemr flaum af skaldi
flóðhyrs, og svo móður,
því að gerðu Bil borða
bæði senn und klæðum,
herr hafi hölds og svarra
hagvirki, svo fagra.
Og þá gaf Gunnlaugur Helgu skikkjuna Aðalráðsnaut og var það gersemi sem mest. Hún þakkaði honum vel gjöfina.
Síðan gekk Gunnlaugur út og voru þá komin hross og hestar söðlaðir og margir allvænlegir og bundnir heima á hlaðinu. Gunnlaugur hljóp á bak einhverjum hesti og reið á skeið eftir túninu og að þangað er Hrafn stóð fyrir og varð Hrafn að opa undan.
Gunnlaugur mælti: "Ekki er að opa undan Hrafn," segir hann, "fyrir því að önga ógn býð eg þér að sinni en þú veist til hvers þú hefir unnið."
Hrafn svarar og kvað vísu:
Samira okkr um eina,
Ullr beinflugu, Fullu,
frægir fólka Ságu,
fangs í brigð að ganga.
Mjök eru margar slíkar,
morðrunnr, fyrir haf sunnan,
ýti eg sævar Sóta,
sannfróðr, konur góðar.
Gunnlaugur svarar: "Vera má," segir hann, "að margar séu en eigi þykir mér svo."
Þá hlupu þeir Illugi að og Þorsteinn og vildu ekki að þeir ættust við.
Þá kvað Gunnlaugur vísu:
Gefin var Eir til aura
ormdags hin litfagra,
þann kveða menn né minna
minn jafnoka, Hrafni,
allra nýstr meðan austan
Aðalráðr farar dvaldi,
því er menrýris minni
málgráðr, í gný stála.
Og eftir þetta riðu menn heim hvorirtveggju og var allt kyrrt og tíðindalaust um veturinn. Nýtti Hrafn ekki síðan af samvistum við Helgu þá er þau Gunnlaugur höfðu fundist.
Og um sumarið riðu menn fjölmennir til þings, Illugi svarti og synir hans með honum Gunnlaugur og Hermundur, Þorsteinn Egilsson og Kollsveinn son hans, Önundur frá Mosfelli og synir hans allir, Svertingur Hafur-Bjarnarson.
Skafti hafði þá enn lögsögn.
Og einn dag á þinginu er menn gengu fjölmennir til Lögbergs og er þar var lykt að mæla lögskilum þá kvaddi Gunnlaugur sér hljóðs og mælti: "Er Hrafn hér Önundarson?"
Hann kveðst þar vera.
Gunnlaugur ormstunga mælti þá: "Það veist þú að þú hefir fengið heitkonu minnar og dregst til fjandskapar við mig nú fyrir það. Vil eg bjóða þér hólmgöngu hér á þinginu á þrigga nátta fresti í Öxarárhólmi."
Hrafn svarar: "Þetta er vel boðið sem von var að þér," segir hann, "og em eg þessa albúinn þegar þú vilt."
Þetta þótti illt frændum hvorstveggja þeirra en þó voru það lög í þann tíma að bjóða hólmgöngu sá er vanhluta þóttist verða fyrir öðrum.
Og er þrjár nætur voru liðnar bjuggust þeir til hólmgöngu og fylgdi Illugi svarti syni sínum til hólmsins með miklu fjölmenni. En Skafti lögmaður fylgdi Hrafni og faðir hans og aðrir frændur hans.
Og áður Gunnlaugur gengi út í hólminn þá kvað hann vísu þessa:
Nú em eg út á eyri
alvangs búinn ganga,
happs unni guð greppi,
gert, með tognum hjörvi.
Hnakk skal Helgu lokka,
haus vinn eg frá bol lausan
loks með ljósum mæki
ljúfsvelgs, í tvö kljúfa.
Hrafn svarar og kvað þetta:
Veitat greppr hvor greppa
gagnsælli hlýtr fagna.
Hér er bensigðum brugðið.
Búin er egg í leggi.
Það mun ein og ekkja
ung mær, þó að við særumst,
þorna spöng af þingi
þegns hugrekki fregna.
Hermundur hélt skildi fyrir Gunnlaug bróður sinn en Svertingur Hafur-Bjarnarson fyrir Hrafn. Þrem mörkum silfurs skyldi sá leysa sig af hólminum er sár yrði.
Hrafn átti fyrr að höggva er á hann var skorað og hjó hann í skjöld Gunnlaugs ofanverðan og brast sverðið þegar sundur undir hjöltunum er til var hoggið af miklu afli. Blóðrefillinn hraut upp af skildinum og kom á kinn Gunnlaugi og skeindist hann heldur en eigi. Þá hlupu feður þeirra þegar á millum og margir aðrir menn.
Þá mælti Gunnlaugur: "Nú kalla eg að Hrafn sé sigraður er hann er slyppur."
"En eg kalla að þú sért sigraður," segir Hrafn, "er þú ert sár orðinn."
Gunnlaugur var þá allæfur og reiður mjög og kvað ekki reynt vera. Illugi faðir hans kvað þá eigi skyldu reyna meir að sinni.
Gunnlaugur svarar: "Það mundi eg vilja," segir hann, "að við Hrafn mættumst svo öðru sinni að þú værir fjarri faðir að skilja okkur."
Og við þetta skildu þeir að sinni og gengu menn heim til búða sinna.
Og annan dag eftir í lögréttu var það í lög sett að af skyldi taka hólmgöngur allar þaðan í frá og var það gert að ráði allra vitrustu manna er við voru staddir en þar voru allir þeir er vitrastir voru á landinu. Og þessi hefir hólmganga síðast framin verið á Íslandi er þeir Hrafn og Gunnlaugur börðust. Það hefir hið þriðja þing verið fjölmennast, annað eftir brennu Njáls, hið þriðja eftir Heiðarvíg.
Og einn morgun er þeir bræður Hermundur og Gunnlaugur gengu til Öxarár að þvo sér þá gengu öðrumegin að ánni konur margar og var þar Helga hin fagra í því liði.
Þá mælti Hermundur: "Sérð þú Helgu vinkonu þína hér fyrir handan ána?"
Gunnlaugur svarar: "Sé eg hana víst."
Og þá kvað Gunnlaugur vísu þessa:
Alin var rýgr að rógi,
runnr olli því Gunnar,
lág var eg auðs að eiga
óðgjarn, fira börnum.
Nú eru svanmærrar síðan
svört augu mér bauga
lands til lýsi-Gunnar
lítilþörf að líta.
Síðan gengu þeir yfir ána og töluðu þau Helga og Gunnlaugur um stund. Og er þeir gengu austur yfir ána þá stóð Helga og starði á Gunnlaug lengi eftir.
Gunnlaugur leit þá aftur yfir ána og kvað vísu þessa:
Brámáni skein brúna
brims af ljósum himni
Hristar hörvi glæstrar
haukfránn á mig lauka.
En sá geisli sýslar
síðan gullmens Fríðar
hvarma tungls og hringa
Hlínar óþurft mína.
Og eftir þetta um liðið riðu menn heim af þinginu og var Gunnlaugur heima á Gilsbakka.
Og einn morgun er hann vaknaði þá voru allir menn upp risnir nema hann lá. Hann hvíldi í lokrekkju innar af seti. Þá gengu í skálann tólf menn, allir alvopnaðir, og var þar kominn Hrafn Önundarson. Gunnlaugur spratt upp þegar og gat fengið vopn sín.
Þá mælti Hrafn: "Við öngu skal þér hætt vera," segir hann, "en það er erindi mitt hingað að þú skalt nú heyra. Þú bauðst mér hómgöngu í sumar á alþingi og þótti þér sú ekki reynd verða. Nú vil eg þér bjóða að við förum báðir á brott af Íslandi og utan í sumar og göngum á hólm í Noregi. Þar munu eigi frændur okkrir fyrir standa."
Gunnlaugur svarar: "Mæl drengja heilastur og þenna kost vil eg gjarna þiggja. Og er hér að þiggja Hrafn," segir hann, "þann greiða sem þú vilt."
Hrafn svarar: "Það er vel boðið en ríða munum vér fyrst að sinni."
Og við þetta skildu þeir.
Þetta þótti frændum hvorstveggja þeirra stórum illa en fengu þó ekki að gert fyrir ákafa þeirra sjálfra enda varð það fram að koma sem til dró.
12
Nú er að segja frá Hrafni að hann bjó skip sitt í Leiruvogum. Tveir menn eru þeir nefndir er fóru með Hrafni, systursynir Önundar föður hans. Hét annar Grímur en annar Ólafur og voru báðir gildir menn. Öllum frændum Hrafns þótti mikill svipur er hann fór í brott en hann sagði svo, kvaðst því Gunnlaug á hólm skorað hafa að hann kvaðst öngvar nytjar hafa Helgu og kvað annan hvorn verða að hníga fyrir öðrum.
Síðan sigldi Hrafn í haf er þeim gaf byr og komu skipi sínu í Þrándheim og var þar of veturinn og frétti ekki til Gunnlaugs á þeim vetri og þar beið hann Gunnlaugs um sumarið. Og enn annan vetur var hann í Þrándheimi þar sem heitir í Lifangri.
Gunnlaugur ormstunga réðst til skips með Hallfreði vandræðaskáldi norður á Sléttu og urðu þeir síðbúnir mjög og sigldu þeir í haf þegar byr gaf og komu við Orkneyjar litlu fyrir vetur.
Sigurður jarl Hlöðvisson réð þá fyrir eyjunum og fór Gunnlaugur til hans og var þar um veturinn og virti jarl hann vel. Og um vorið bjóst jarl í hernað. Gunnlaugur bjóst til ferðar með honum og herjuðu um sumarið víða um Suðureyjar og Skotlandsfjörðu og áttu margar orustur og reyndist Gunnlaugur hinn hraustasti og hinn vaskasti drengur og hinn harðasti karlmaður hvar sem þeir komu. Sigurður jarl snerist snemmendis sumars aftur en Gunnlaugur sté þá á skip með kaupmönnum þeim er sigldu til Noregs og skildu þeir Sigurður jarl með mikilli vináttu.
Gunnlaugur fór norður til Þrándheims á Hlaðir á fund Eiríks jarls og var þar öndverðan vetur og tók jarl vel við honum og bauð honum með sér að vera og það þekktist hann. Frétt hafði jarl áður viðskipti þeirra Hrafns svo sem var og segir Gunnlaugi að hann lagði bann fyrir að þeir berðust þar í hans ríki. Gunnlaugur kvað hann slíku ráða mundu og var Gunnlaugur þar um veturinn og jafnan fálátur.
Og um vorið einn dag gekk Gunnlaugur úti og Þorkell frændi hans með honum. Þeir gengu í brott frá bænum og á völlum fyrir þeim var mannhringur. Og í hringinum innan voru tveir menn með vopnum og skylmdust. Var þar annar nefndur Hrafn en annar Gunnlaugur. Þeir mæltu er hjá stóðu að Íslendingar hyggi smátt og væru seinir til að muna orð sín. Gunnlaugur fann að hér fylgdi mikið háð og hér var mikið spott að dregið og gekk Gunnlaugur í brott þegjandi.
Og litlu síðar eftir þetta segir hann jarli að hann kveðst eigi lengur nenna að þola háð og spott hirðmanna hans um mál þeirra Hrafns og beiddi jarl fá sér leiðtoga inn í Lifangur. Jarli var sagt áður að Hrafn var í brottu úr Lifangri og farinn austur til Svíþjóðar og því gaf hann Gunnlaugi orlof að fara og fékk honum leiðtoga tvo til ferðarinnar.
Nú fer Gunnlaugur af Hlöðum við sjöunda mann inn í Lifangur og þann mogun hafði Hrafn farið þaðan með fimmta mann er Gunnlaugur kom þar um kveldið. Þaðan fór Gunnlaugur í Veradal og kom þar að kveldi jafnan sem Hrafn hafði áður verið um nóttina. Gunnlaugur fer til þess er hann kom á efsta bæ í dalnum er á Súlu hét og hafði Hrafn þaðan farið um moguninn. Gunnlaugur dvaldi þá ekki ferðina og fór þegar um nóttina. Og um morguninn í sólarroð þá sáu hvorir aðra. Hrafn var þar kominn sem voru vötn tvö og á meðal vatnanna voru vellir sléttir. Það heita Gleipnisvellir. En fram í vatnið annað gekk nes lítið er heitir Dinganes. Þar námu þeir Hrafn við í nesinu og voru fimm saman. Þeir voru þar með Hrafni frændur hans, Grímur og Ólafur.
Og er þeir mættust þá mælti Gunnlaugur: "Það er nú vel er við höfum fundist."
Hrafn kvaðst það ekki lasta mundu "og er nú kostur hvor er þú vilt," segir Hrafn, "að vér berjumst allir eða við tveir og séu jafnmargir hvorir."
Gunnlaugi kveðst vel líka hvort að heldur er. Þá mæltu þeir frændur Hrafns, Grímur og Ólafur, kváðust eigi vilja standa hjá er þeir berðust. Svo mælti og Þorkell svarti frændi Gunnlaugs.
Þá mælti Gunnlaugur við leiðtogana jarls: "Þið skuluð sitja hjá og veita hvorigum og vera til frásagnar um fund vorn."
Og svo gerðu þeir.
Síðan gengust þeir að, börðust fræknlega allir. Þeir Grímur og Ólafur gengu báðir í mót Gunnlaugi einum og lauk svo þeirra viðskipti að hann drap þá báða en hann varð ekki sár.
Þetta sannar Þórður Kolbeinsson í kvæði því er hann orti um Gunnlaug ormstungu:
Hlóð, áðr Hrafni næði,
hugreifum Óleifi
Göndlar þeys og Grími
Gunnlaugr með hjör þungum.
Hann varð hvatra manna
hugmóðr drifinn blóði,
Ullr réð ýta falli
unnviggs, bani þriggja.
Þeir Hrafn sóttust meðan og Þorkell svarti frændi Gunnlaugs og féll Þorkell fyrir Hrafni og lét líf sitt. Og allir féllu förunautar þeirra að lyktum. Og þá börðust þeir tveir með stórum höggum og öruggum atgangi er hvor veitti öðrum og sóttust einart í ákafa. Gunnlaugur hafði þá sverðið Aðalráðsnaut og var það hið besta vopn. Gunnlaugur hjó þá um síðir til Hrafns mikið högg með sverðinu og undan Hrafni fótinn. Hrafn féll þó eigi að heldur og hnekkti þá að stofni einum og studdi þar á stúfinum.
Þá mælti Gunnlaugur: "Nú ertu óvígur," segir hann, "og vil eg eigi lengur berjast við þig örkumlaðan mann."
Hrafn svaraði: "Svo er það," segir hann, "að mjög hefir á leikist minn hluta en þó mundi mér enn vel duga ef eg fengi að drekka nokkuð."
Gunnlaugur svarar: "Svík mig þá ei," segir hann, "ef eg færi þér vatn í hjálmi mínum."
Hrafn svarar: "Ei mun eg svíkja þig," segir hann.
Síðan gekk Gunnlaugur til lækjar eins og sótti í hjálminum og færði Hrafni. En hann seildist í mót hinni vinstri hendinni en hjó í höfuð Gunnlaugi með sverðinu hinni hægri hendi og varð það allmikið sár.
Þá mælti Gunnlaugur: "Illa sveikstu mig nú og ódrengilega fór þér þar sem eg trúði þér."
Hrafn svarar: "Satt er það," segir hann, "en það gekk mér til þess að eg ann þér eigi faðmlagsins Helgu hinnar fögru."
Og þá börðust þeir enn í ákafa en svo lauk að lyktum að Gunnlaugur bar af Hrafni og lét Hrafn þar líf sitt. Þá gengu fram leiðtogar jarls og bundu höfuðsárið Gunnlaugs.
Hann sat þá meðan og kvað þá vísu þessa:
Oss gekk mætr á móti
mótrunnr í dyn spjóta
hríðgjörvandi hjörva
Hrafn framlega jafnan.
Hér varð mörg í morgun
málmflaug um Gunnlaugi,
hergerðandi á Hörða
hringþollr, nesi Dinga.
Síðan bjuggu þeir um dauða menn og færðu Gunnlaug á hest sinn eftir það og komust með hann allt ofan í Lifangur. Og þar lá hann þrjár nætur og fékk alla þjónustu af presti og andaðist síðan og var þar jarðaður að kirkju.
Öllum þótti mikill skaði að um hvorntveggja þeirra, Gunnlaug og Hrafn, með þeim atburðum sem varð um líflát þeirra.
13
Og um sumarið áður þessi tíðindi spurðust út hingað til Íslands þá dreymdi Illuga svarta og var hann þá heima á Gilsbakka. Honum þótti Gunnlaugur að sér koma í svefninum og var blóðugur mjög og kvað vísu þessa fyrir honum í svefninum. Illugi mundi vísuna er hann vaknaði og kvað síðan fyrir öðrum:
Vissi eg Hrafn, en Hrafni
hvöss kom egg í leggi,
hjaltugguðum höggva
hrynfiski mig brynju,
þá er hræskærri hlýrra
hlaut fen ari benja.
Klauf gunnsproti Gunnar
Gunnlaugs höfuð runna.
Sá atburður varð suður að Mosfelli hina sömu nátt að Önund dreymdi að Hrafn kæmi að honum og var allur alblóðugur.
Hann kvað vísu þessa:
Roðið sverð en sverða
sverð-Rögnir mig gerði.
Voru reynd í röndum
randgálkn fyrir ver handan.
Blóðug hygg eg í blóði
blóðgögl of skör stóðu.
Sárfíkinn hlaut sára
sárgammr enn á þramma.
Og um sumarið annað eftir á alþingi mælti Illugi svarti til Önundar að Lögbergi: "Hverju viltu bæta mér son minn," sagði hann, "er Hrafn son þinn sveik hann í tryggðum?"
Önundur svarar: "Fjarkominn þykist eg til þess," sagði hann, "að bæta hann svo sárt sem eg hélt á þeirra fundi. Mun eg og öngra bóta beiða þig fyrir minn son."
Illugi svarar: "Kenna skal þá nakkvar að skauti, þinn frændi eða þinna ættmanna."
Og eftir þingið um sumarið var Illugi jafnan dapur mjög.
Það var sagt um haustið að Illugi reið heiman af Gilsbakka með þrjá tigu manna og kom til Mosfells snemma morguns. Önundur komst í kirkju og synir hans en Illugi tók frændur hans tvo. Hét annar Björn en annar Þorgrímur. Hann lét drepa Björn en fóthöggva Þorgrím. Reið Illugi heim eftir það og varð þessa engi rétting af Önundi.
Hermundur Illugason undi lítt eftir Gunnlaug bróður sinn og þótti ekki hans hefnt að heldur þótt þetta væri að gert.
Maður hét Hrafn og var bróðurson Önundar að Mosfelli. Hann var farmaður mikill og átti skip er uppi stóð í Hrútafirði. Og um vorið reið Hermundur Illugason heiman einn samt og norður Holtavörðuheiði og svo til Hrútafjarðar og út á Borðeyri til skips kaupmannanna. Kaupmenn voru þá búnir mjög. Hrafn stýrimaður var á landi og mart manna hjá honum. Hermundur reið að honum og lagði í gegnum hann spjótinu og reið þegar í brott. En þeim varð öllum bilt félögum Hrafns við Hermund. Öngar komu bætur fyri víg þetta og með þessu skilur skipti þeirra Illuga svarta og Önundar að Mosfelli.
Þorsteinn Egilsson gifti Helgu dóttur sína er stundir liðu fram þeim manni er Þorkell hét og var Hallkelsson. Hann bjó út í Hraunsdal og fór Helga til bús með honum og varð honum lítt unnandi því að hún verður aldrei afhuga Gunnlaugi þótt hann væri dauður. En Þorkell var þó vaskur maður að sér og auðigur að fé og skáld gott. Þau áttu börn saman eigi allfá. Þórarinn hét son þeirra og Þorsteinn og enn fleiri börn áttu þau.
Það var helst gaman Helgu að hún rekti skikkjuna Gunnlaugsnaut og horfði þar á löngum. Og eitt sinn kom þar sótt mikil á bæ þeirra Þorkels og Helgu og krömdust margir lengi. Helga tók þá og þyngd og lá þó eigi. Og einn laugaraftan sat Helga í eldaskála og hneigði höfuð í kné Þorkatli bónda sínum og lét senda eftir skikkjunni Gunnlaugsnaut. Og er skikkjan kom til hennar þá settist hún upp og rakti skikkjuna fyrir sér og horfði á um stund. Og síðan hné hún aftur í fang bónda sínum og var þá örend.
Þorkell kvað þá vísu þessa:
Lagði eg orms að armi
armgóða mér tróðu,
guðbrá Lofnar lífi
líns, andaða mína.
Þó er beiðendum bíða
bliks þungara miklu.
Helga var til kirkju færð en Þorkell bjó þar eftir og þótti allmikið fráfall Helgu sem von var að.
Og lýkur þar nú sögunni.