Margrét Kara leitar sér að liði fyrir næsta tímabil - Vísir (original) (raw)
Margrét Kara Sturludóttir, besti leikmaður úrvalsdeildar kvenna 2010-11, ætlar að taka fram skóna á næsta tímabili og spila í Domnios-deild kvenna í körfubolta en hún hefur ekki spilað hér á landi undanfarin þrjú tímabil.
Karfan.is segir frá þessu og í fréttinni kemur fram að hún sé ekki búin að ákveða sig með hvaða liði hún spilar á komandi tímabili.
Það eru örugglega mörg lið í Dominos-deild kvenna sem hafa áhuga á því að fá þennan kraftmikla og fjölhæfa leikmenn til liðs við sig fyrir átökin á næstu leiktíð.
Margrét Kara lék síðast með KR veturinn 2011-12 en þá var hún með 15,2 stig, 9,0 fráköst og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Margrét Kara hefur bæði orðið Íslandsmeistari með Keflavík (2008) og KR (2010) en veturinn 2010-11 var hún kosin leikmaður ársins eftir að hafa verið með 19,0 stig, 7,6 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Margrét fór í barneignaleyfi tímabilið 2012 til 2013 og hefur síðustu misserin verið búsett í Noregi. Hún er núna á heimaleið og að leita sér að liði.