Gríms saga loðinkinna (original) (raw)
1. Kvonfang Gríms og konuhvarf
Svo er sagt af Grími loðinkinna, að hann var bæði mikill og sterkur og hinn mesti garpur. Því var hann loðinkinni kallaður, að kinn hans önnur var vaxin með dökkt hár, og með því var hann alinn. Ekki beit þar járn á. Grímur tók við búi í Hrafnistu eftir Ketil hæng, föður sinn. Hann gerðist ríkur að fé. Hann réð og nálega einn öllu um allt Hálogaland.
Haraldur hét einn hersir ríkur og ágætur í Vík austur. Hann átti Geirhildi, dóttur Sölga konungs, Hrólfssonar konungs úr Bergi af Upplöndum. Dóttir þeirra hét Lofthæna. Hún var kvenna fríðust og vel mennt. Þangað fór Grímur loðinkinni á skútu við átjánda mann og bað Lofthænu sér til handa. Var það að ráðum ráðið, og skyldi hann sækja brullaupið um haustið. En sjö nóttum fyrr hvarf Lofthæna burt, og vissi enginn, hvað af henni varð. En er hann kom til brullaupsins, saknar hann vinar í stað, er brúðurin var í burtu, og þóttist hann þó vita, að faðir hennar olli þar engu um. Þar sat hann þrjár nætur, og drukku þeirr og þó með lítilli kæti. Síðan fór hann heim í Hrafnistu.
Það hafði borið til fimm árum fyrr, að kona Haralds hersis hafði andast en hann fékk ári síðar norðan af Finnmörk Grímhildar Jösursdóttur og hafði hana heim til sín. Skjótt þótti hún þar öllu spilla. Illa var hún til Lofthænu, stjúpdóttur sinnar, sem síðar bar raun á. Grímur undi lítt við hag sinn, er hann spurði ekki til Lofthænu, festarkonu sinnar.
Það bar þá til sem oftar, að hallæri mikið kom á Hálogaland. Grímur loðinkinni bjóst þá heiman og fór á ferju sinni við þriðja mann. Hann hélt norður fyrir Finnmörk og svo austur til Gandvíkur. Og er hann kom í víkina, sá hann, að þar var nógur veiðifangi. Setti hann þar upp skip sitt og gekk síðan til skála og kveikti upp eld fyrir sér.
En er þeir voru í svefn komnir um nóttina, vöknuðu þeir við það, að kominn var stormur með svartahríð. Svo mikil grimmd fylgdi veðri þessu, að allt sýldi, bæði úti og inni. Um morguninn, er þeir voru klæddir, gengu þeir út og til sjávar. Sáu þeir þá, að á burtu var allur veiðifangi, svo að hvergi sá staði. Þóttust þeir nú ekki vel staddir, en ekki gaf á burtu. Gengu þeir nú heim til skála og voru þar um daginn.
Um nóttina vaknar Grímur við það, að hlegið var úti hjá skálanum. Hann spratt þá upp skjótt og tók öxi sína og gekk út. Hann hafði og með sér sem ávallt endranær örvarnar Gusisnauta, er Ketill hængur, faðir hans, hafði gefið honum. En er hann kom út, sá hann tvær tröllkonur við skip niðri, og tók í sinn stafninn hvor þeira og ætluðu að hrista í sundur skipið. Grímur mælti og kvað vísu:
"Hvat heita þær
hrauns íbúur,
er skaða vilja.
skipi mínu?
Ykkur hefi ek
einar sénar
ámátligastar
að yfirlitum."
Sú kvað vísu, er nær honum stóð:
"Feima ek heiti,
fædd var ek norðarla,
Hrímnis dóttir
ór háfjalli.
Hér er systir mín,
hálfu fremri,
Kleima at nafni,
komin til sjóvar."
Grímur kvað:
"Þrífist hvergi
Þjaza dóttir,
brúðir verstar.
Brátt skal ek reiðast.
Ykkr skal ek rétt,
áðr röðull skíni,
vörgum senda
víst til bráðar."
Kleima kvað:
"Þat var fyrri,
at faðir okkarr
burtu seiddi
báru hjarðir.
Skuluð aldrigi,
nema sköp ráði,
heilir heðan
heim of komast."
Grímur kvað:
"Skal ek ykkr báðum
skjótla heita
oddi og eggju
í upphafi.
Munu þá reyna
Hrímnis mellur,
hvárt at betr dugir
broddr eða krumma."
Grímur tók þá eina af Gusisnautum og skaut þá, er firr honum stóð, svo að hún fékk þegar bana. Feima mælti: "Illa fór nú, Kleima systir."
Hún veður þá upp að Grími. Hann höggur þá til hennar með öxinni, og kom á herðarblaðið. Hún kvað við hátt og hljóp inn með fjörum. Grími varð laus öxin við höggið, og stóð hún föst í sárinu. Grímur hljóp eftir, og bar hvorki með þeim sundur né saman, og allt þar til að þau komu að björgum stórum. Þar sá hann framan í björgunum helli mikinn. Þar var einstigi upp að ganga, og hljóp hún þar upp sem sléttan völl. Og í því er hún hóf sig til hlaups upp í björgin, hraut öxin úr sárinu. Grímur tók hana þegar upp, og varð hann að krækja öxinni í annað sporið, er hann stóð í öðru, og las sig svo eftir skaptinu, og svo komst hann upp í hellinn. Þar sá hann brenna bjartan eld, og sátu tvö tröll við eldinn. Það var karl og kerling. Þau spyrndust í iljar. Þau voru í stuttum og skörpum skinnstökkum bæði. Gerla sá hann, hversu þau voru í sköpun bæði í millum fótanna. Hann hét Hrímnir, en hún Hyrja. En er Feima kom inn í hellinn, heilsuðu þau henni og spurðu, hvar Kleima, systir hennar, væri.
Hún svarar: "Gettu þessna, hún liggur dauð út með fjörum, en ég særð banasári. En þið liggið inni og fletist hér við eld."
Jötunninn mælti: "Þetta hefir verið lítið fremdarverk, að drepa ykkur, aðra sex vetra, en hina sjö. Eða hver hefir gert þetta?"
Feima svarar: "Þetta hefir gert illmennið Grímur loðinkinni. Eru þeir feðgar meir lagðir til þess en aðrir menn að drepa niður tröll og bergbúa. En þó að hann hafi nú þetta gert, þá mun hann þó aldrei ná Lofthænu, konu sinni. Og er það nú gaman, svo skammt sem nú er á millum þeirra."
Hrímnir mælti þá: "Því veldur Grímhildur, systir mín, og er henni flest til mennta gefið."
Þá mæddi Feimu blóðrás, og féll hún dauð niður. Í því gekk Grímur inn í hellinn og hjó til Hrímnis karls svo hart, að af tók höfuðið. Þá spratt Hyrja kerling upp og rann á hann, og tóku þau að glíma, og var þeirra atgangur bæði harður og langur, því að hún var ið mesta tröll, en Grímur var rammur að afli. En þó lauk svo, að hann brá henni á loftmjöðm, svo að hún féll. Hjó hann þá af henni höfuðið og gekk af henni dauðri, fór síðan til skála síns.
2. Grímur leysti Lofthænu úr álögum
Annan dag eftir var veður gott. Gengu þeir þá um fjörur og sáu, hvar rekin var reyður mikil. Gengu þeir þangað og tóku til hvalskurðar. Litlu síðar sá Grímur, hvar tólf menn gengu. Þá bar brátt að. Grímur heilsar þeim og spyrr að nafni. Sá kveðst heita Hreiðarr hinn hvatvísi, er fyrir þeim var, og spurði, hví Grímur vildi ræna hann eigu sinni. Grímur kveðst fyrr hafa fundið hvalinn.
"Veiztu eigi," sagði Hreiðarr, "að ég á hér reka alla?"
"Eigi veit ég það," sagði Grímur, "en hversu sem er, þá höfum að helmingi."
"Eigi vil ég það," sagði Hreiðarr. "Þér skuluð gera annaðhvort, ganga frá hvalnum ella munum vér berjast."
"Fyrr gerum vér það," sagði Grímur, "en missa allan hvalinn," fóru síðan til og börðust, og gerðist þar hin harðasta sókn. Hreiðarr og hans menn voru bæði stórhöggvir og vopnfimir, og innan lítils tíma féllu báðir menn Gríms. Var þá bardagi hinn harðasti, en þó lauk svo, að Hreiðarr féll og allir menn hans. Grímur féll og bæði af sárum og mæði. Lá hann þar nú í valnum í fjörunni og ætlaði sér ekki nema dauða.
En er hann hafði eigi lengi legið, sá hann, hvar kona gekk, ef svo skyldi kalla. Hún var eigi hærri en sjö vetra gamlar stúlkur, en svo digur, að Grímur hugði, að hann mundi eigi geta feðmt um hana. Hún var langleit og harðleit, bjúgnefjuð og baröxluð, svartleit og svipilkinnuð, fúlleit og framsnoðin. Svört var hún bæði á hár og á hörund. Hún var í skörpum skinnstakki. Hann tók eigi lengra en á þjóhnappa henni á bakið. Harðla ókyssilig þótti honum hún vera, því að hordingullinn hékk ofan fyrir hváptana á henni.
Hún gengur þangað að, sem Grímur lá, og mælti: "Lágt fara nú höfðingjarnir Háleygjanna, eða viltu, Grímur, þiggja líf af mér?"
Grímur svarar: "Varla kann ég það, svo ámátleg sem þú ert, eða hvert er nafn þitt?"
Hún svarar: "Ég heiti Geirríður Gandvíkurekkja. Máttu það ætla, að ég er hér nokkurs ráðandi um víkina, og ger þig greiðan í öðru hvoru."
Grímur svarar: "Það er fornt orð, að frekur er hver til fjörsins, og mun ég það kjósa að þiggja líf af þér."
Hún greip hann þá upp undir skinnstakkinn og hljóp með hann sem eitt lébarn og svo hart, að hann var vinds fullur. Hún létti eigi fyrri en þau komu að helli einum stórum, og er hún lét hann niður, sýndist Grími hún slíkt að ámátlegri en fyrr.
"Nú ertu hér kominn," sagði hún, "og vil ég, að þú launir mér, að ég barg þér og bar hingað, og kyssir mig nú."
"Það má ég engan veg gera," sagði Grímur, "svo fjandlega sem mér líst nú á þig."
"Þá mun ég enga þjónustu þér veita," sagði Geirríður, "og sé ég, að þá ertu skjótt sem dauður."
"Það mun þá þó vera verða," sagði Grímur, "þó að mér sé það mjög í móti skapi."
Hann gekk þá að henni og kyssti hana. Eigi þótti honum hún svo ill viðkomu sem hún var hrímugleg að sjá. Þá var komið að kveldi. Bjó Geirríður þá sæng og spurði, hvort Grímur vill liggja einn saman eða hjá sér. Grímur kvaðst heldur vilja liggja einn saman. Hún kveðst þá enga stund vilja á leggja að græða hann. Grímur sá, að það mátti honum eigi nægja, og kveðst þá heldur mundu hjá henni liggja, ef sá væri á baugi. Gerði hann þá svo. Batt hún áður öll sár hans, og þóttist hann hvorki kenna sviða né sárinda. Það þótti honum undarlegast, hversu mjúkfingruð hún var, svo ljótar hendur sem honum sýndist hún hafa, því að honum þótti þær gammsklóm líkari en mannshöndum. En þegar er þau komu í sæng, sofnaði Grímur.
En er hann vaknar, sá hann konu svo fagra liggja í sænginni hjá sér, að slíka þóttist hann varla séð hafa. Hann undraðist, hversu lík hún mátti vera sköpuð Lofthænu, festarkonu hans. Niðri fyrir stokkinum sá hann, hvar lá sá hinn illilegi tröllkonuhamur, er Geirríður Gandvíkurekkja hafði haft. Raun-máttlítil var þá þessi kona. Hann stóð upp skjótt og dró haminn fram í eldinn og brenndi upp að kolum.
Síðan fór hann til og dreypti á konuna, þar til að hún raknaði við og mælti: "Nú hefir hvorttveggja okkar vel: Ég gaf þér líf fyrir öndverðu, en þú komst mér úr ánauðum."
"Hversu komstu hér, eða með hverju móti er um hag þinn?" sagði Grímur.
Hún svarar: "Litlu síðar en þú varst farinn úr Vík austan frá Haraldi, föður mínum, mætti Grímhildur, stjúpmóðir mín, mér, svo talandi: "Nú skal ég það launa þér, Lofthæna, að þú hefir sýnt mér þrjósku og þverúð, síðan er ég kom í ríkið. Læt ég það verða um mælt, að þú verðir að hinni ljótustu tröllkonu og hverfir norður til Gandvíkur og byggir þar afhelli og sitjir þar í stóðrenni við Hrímni, bróður minn, og eigist þið við bæði margt og illt, og hafi það verr, sem verr herðir sig. Þú skalt og vera hvimleið öllum, bæði tröllum og mönnum. Þú skalt og," sagði hún, "í þessari ánauð vera alla þina ævi og aldrei úr komast, nema nokkurr mennskur maður játi þér þeim þrem hlutum, sem þú beiðir, sem ég veit, að enginn mun vera. Sá er hinn fyrsti að þiggja að þér líf, sá annarr að kyssa þig, og sá er hinn þriðji að byggja eina sæng og þú, sem öllum mun first um fara."Nú hefir þú þessa hluti alla við mig gerva, enda var þér og skyldast. Nú vil ég, að þú færir mig í Vík austur til föður míns og drekkir til mín brullaup eftir því, sem ælað var."
Síðan fóru þau heim til skála Gríms, og var þá nógur veiðifangi. Lá þá hvalur í hverri vík. Hlóð hann nú ferju sína, og er hann var búinn, hélt hann frá landi, og voru þau tvö á skipi, Grímur og Lofthæna. Tók hann þá til listar þeirrar, er haft hafði Ketill hængur, faðir hans, og aðrir Hrafnistumenn, að hann dró upp segl í logni, og rann þegar byrr á. Sigldi hann þá heim í Hrafnistu, og þóttust menn hann hafa heimtan úr helju.
3. Grímur gekk á hólm við Sörkvi
Litlu síðar kom Grímur í Vík austur, og fór Lofthæna með honum. Grímhildur réð þá nálega öllu ein austur þar. En þegar Grímur kom, lét hann Grímhildi verða tekna og færðan belg á höfuð henni og barða grjóti í hel, því að hann hafði áður sagt Haraldi hersi, hversu farið hefði. Gerði hann þá brullaup til Lofthænu og fór heim síðan í Hrafnistu. En Haraldur hersir kvæntist í þriðja sinn og fékk Þórgunnar Þorradóttur.
Eigi höfðu þau Grímur og Lofthæna lengi ásamt verið, áður þau áttu dóttur þá, er Brynhildur hét. Hún óx upp í Hrafnistu og var hin fegursta mær. Unni Grímur henni og mikið. En er hún var tólf ára gömul, bað hennar sá maður, er Sörkvir hét og var Svaðason, Rauðfeldssonar, Bárðarsonar, Þorkelssonar bundinfóta. Hún vildi ekki ganga með honum, og fyrir það skorar Sörkvir Grím á hólm. Grímur játar því. Sörkvir var sygnskur að móðurætt, og þar átti hann búum að stýra. Á hálfsmánaðar fresti átti hólmgangan að vera.
Ásmundur hefir hersir heitið í Noregi. Hann réð fyrir þeim bæ, er á Berurjóðri heitir. Hann var kvongaður maður og átti þann son, er Ingjaldur hét. Hann var hinn fræknasti maður og var löngum með Grími loðinkinna, og var með þeim vinátta mikil, en þó var Ingjaldur þeirra eldri, en miklu sterkari var Grímur. Ingjaldur fékk þeirrar konu, er Dagný hét, dóttur Ásmundar, er við Gnoð var kenndur, en systur Óláfs liðsmannakonungs. Við henni átti hann þann son, er Ásmundur hét, er síðan var fóstbróðir Odds hins víðförla, er var með Sigurði hring á Brávelli, er öðru nafni hét Örvar-Oddur.
Í nefndan tíma kom Sörkvir til hólmsins við tólfta mann. Það voru allt berserkir. Þar var Grímur þá og kominn og Ingjaldur með honum og margir háleygskir bændur. Gengu þeir á hólm, og átti Grímur fyrr að höggva. Hann hafði sverðið Dragvendil, er faðir hans hafði átt. Sá hét Þröstur, er skildi hélt fyrir Sörkvi. Grímur hjó svo mikið hið fyrsta högg, að hann klauf skjöldinn að endilöngu, en blóðrefillinn nam vinstri öxl á Þresti og sneiddi svo um þvert manninn í sundur fyrir ofan mjöðmina hina hægri, og hljóp svo sverðið á lærið Sörkvi, að tók undan honum báða fæturna annan fyrir ofan kné, en annan fyrir neðan, og féll hann dauður niður. Þeir Ingjaldur snúa nú að þeim tíu, sem eftir voru, og léttu eigi, fyrr en þeir voru allir drepnir. Þá kvað Grímur vísu:
"Hér höfum fellt
til foldar
tírarlausa
tólf berserki.
Þó var Sörkvir
þróttrammastr
þeira seggja,
en Þröstur annarr."
Og enn kvað hann:
"Fyrst mun ek líkja
eptir feðr mínum:
skal-at mín dóttír,
nema skör höggvist,
nauðig gefin
neinum manni,
guðvefs þella,
meðan Grímr lifir."
Fór Grímur nú heim eftir hólmgönguna, en Ingjaldur til Berurjóðurs. Litlu seinna andaðist faðir hans, og tók hann þá við öllum eignum og gerðist gildur bóndi og hinn mesti búrisnumaður.
4. Frá niðjum Gríms loðinkinna
Nokkurum vetrum fyrr hafði andast Böðmóður Framarsson og átti eina dóttur við Hrafnhildi, konu sinni, er Þórný hét. Hennar sonur var Þorbjörn tálkni, faðir Ketils breiðs, föður Þórnýjar, er átti Hergils hnapprass. Hrafnhildur fór þá heim í Hrafnistu til Gríms, bróður síns.
Þorkell er nefndur ágætur maður. Hann var jarl yfir Naumdælafylki. Hann fór til Hrafnistu og bað Hrafnhildar. Hún var honum gift. Þeirra sonur var Ketill hængur, er inni brenndi Hárek og Hrærek, Hildiríðar sonu, fyrir það, að þeir rægðu Þórólf, frænda hans. Eftir það fór Ketill til Íslands og nam þar land milli Þjórsár og Markarfljóts og bjó að Hofi. Sonur hans var Hrafn, hinn fyrsti lögmaður á Íslandi. Annarr sonur hans var Helgi, faðir Helgu, er átti Oddbjörn askasmiður. Hinn þriðji var Stórólfur, faðir Orms hins sterka og Hrafnhildar, er átti Gunnarr Baugsson. Þeirra sonur var Hámundur, faðir Gunnars á Hlíðarenda, en dóttir Arngunnur, er átti Hróarr Tungugoði. Þeirra sonur var Hámundur hinn halti.
Veðurormur, sonur Vémundar hins gamla, var hersir ríkur. Hann bað Brynhildar, dóttur Gríms loðinkinna. Hún gekk með honum. Þeirra sonur var Vémundur, faðir Veðurorms, er stökk fyrir Haraldi konungi austur á Jamtaland, og ruddu þar mörk til byggðar. Hans sonur var Hólmfastur, en systir Veðurorms hét Brynhildur; hennar sonur Grímur, er hét eftir Grími loðinkinna.
Þeir frændur, Grímur og Hólmfastur, fóru í vesturvíking og drápu í Suðureyjum Ásbjörn jarl skerjablesa, en tóku þar að herfangi Ólofu, konu hans, og Arneiði, dóttur hans, og hlaut Hólmfastur hana og seldi Veðurormi, frænda sínum, og var hún þar ambátt, til þess að Ketill þrymur fékk hennar og hafði hana út til Íslands. Við hana eru kenndir Arneiðarstaðir í Austfjörðum. Grímur fekk Ólofar, dóttur Þórðar vagalda, er jarl hafði átta.
Grímur fór til Íslands og nam Grímsnes allt upp til Svínavatns og bjó í Öndverðunesi fjóra vetur, en síðan að Búrfelli. Hans sonur var Þorgils, er átti Helgu, dóttur Gests Oddleifssonar. Þeirra synir voru þeir Þórarinn að Búrfelli og Jörundur á Miðengi. Grímur féll á hólmi undir Hallkelshólum fyrir Hallkatli, bróður Ketilbjarnar að Mosfelli.
Grímur loðinkinni sat í Hrafnistu, sem fyrr segir. Hann átti son við konu síðarla, er Oddur hét. Hann var fóstraður hjá Ingjaldi á Berurjóðri. Hann var síðan kallaður ýmist Örvar-Oddur eða Oddur hinn víðförli. Grímur þótti mikill maður fyrir sér. Hann var rammur að afli og fullhugi hinn mesti og bjó þó mjög einn um sitt. Hann varð ellidauður maður.
Og lýkur hér sögu Gríms loðinkinna. En hér hefur upp Örvar-Odds sögu, og er mikil saga.