Argentinos Juniors (original) (raw)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Asociación Atlética Argentinos Juniors | |
Fullt nafn | Asociación Atlética Argentinos Juniors |
Gælunafn/nöfn | El Bicho (Paddan), El Semillero del Mundo (gróðrastöð heimsins), El Tifón de Boyacá (Boyacá fellibylurinn) |
Stytt nafn | Argentinos Juniors |
Stofnað | 14. ágúst 1904 |
Leikvöllur | Estadio Diego Armando Maradona, Búenos Aíres |
Stærð | 26.000 |
Knattspyrnustjóri | Gabriel Milito |
Deild | Primera División (Argentína) |
2022 | 8. sæti |
Heimabúningur Útibúningur |
Asociación Atlética Argentinos Juniors, almennt þekkt sem Argentinos Juniors, er argentínskt knattspyrnufélag frá Buenos Aires. Félagið er ekki eitt af stærstu liðum argentínsku knattspyrnunnar en á þó nokkra landsmeistaratitla og hefur einu sinni unnið álfukeppnina Copa Libertadores. Félagið er frægast fyrir að vera uppeldislið Diego Maradona sem hóf þar atvinnuferil sinn. Leikvangur félagsins hefur heitið í höfuðið á Maradona frá árinu 2004.
Argentinos Juniors var stofnað þann 14. ágúst árið 1904 af hópi ungra pilta sem tilheyrðu félagsskap anarkista sem kallaði sig píslarvottana frá Chicago sem vísaði til þeirra manna sem teknir voru af lífi eftir Blóðbaðið á Haymarket árið 1886. Hið nýstofnaða lið gerði rauðan og hvítan að einkennislit sínum til heiðurs atjórnmálamanninum Alfredo Palacios, sem var fyrsti þingmaður Argentínu úr röðum sósíalista.
Þáttaskil urðu í sögu argentínskrar knattspyrnu árið 1917 þegar átján sögðu skilið við deildarkeppnina til að stofnsetja atvinnumannadeild og var Argentinos Juniors í þeim hópi. Þetta markaði upphafið að innleiðingu atvinnumennsku í íþróttinni í landinu. Ef undan er skilið þriðja sæti í argentínsku deildinni árið 1960, aðeins tveimur stigum á eftir meisturum Independiente markaði félagið ekki djúp spor í fótboltasögunni og var oft í annarri deild.
Argentinos Juniors höfðu orðspor sem uppeldisstöð ungra leikmanna og þann 20. október 1976 fengu stuðningsmenn liðsins að sjá fimmtán ára ungling, Diego Maradona, þreyta frumraun sína með aðalliði félagsins. Hann varð markakóngur Metropolitano ársins 1979 (á þessum árum voru tvær Argentínukeppnir á ári hverju, Metropolitano og Nacional) og átti hann eftir að endurtaka leikinn í næstu þremur meistarakeppnum. Árið 1980 náði Argentinos Juniors öðru sæti í Metropolitano, sem var þá besti árangur félagsins frá upphafi.
Maradona var seldur til Boca Juniors fyrir milljón Bandaríkjadali sem þótti svimandi fjárhæð. Þótt Maradona hafi ekki sjálfum tekist að leiða uppeldisfélag sitt til meistaratignar þá tryggði söluhagnaðurinn af honum það að félagið gat styrkt leikmannahóp sinn verulega.
Argentinos Juniors urðu _Metropolitano_-meistarar árið 1984, sem var fyrsti stóri titill félagsins í sögunni. Annar slíkur fylgdi í kjölfarið þegar liðið varð _Nacional_-meistari 1985. Sama ár tókst liðinu að næla í eftirsóknarverðustu nafnbót fótboltans í Suður-Ameríku þegar liðið vann Copa Libertadores eftir vítaspyrnukeppni í oddaleik á móti kólumbíska liðinu América de Cali. Aftur þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni í keppni Evrópumeistaranna og Suður-Ameríkumeistaranna næsta ár, en þar tapaði liðið á móti Juventus frá Ítalíu.
Árið 1988 rataði Argentinos Juniors í heimsfréttirnar eftir það sem þá var talið lengsta vítaspyrnukeppni sögunnar í leik gegn Racing Club. Liðið vann þá 20:19 eftir að 44 spyrnur höfðu verið teknar.
Í byrjun 21. aldarinnar lenti Argentinos Juniors í kröggum og þurfti að verja nokkrum misserum í annarri deild. Liðið kom sterkt til baka og árið 2010 urðu þeir í þriðja sinn argentísnkir meistarar eftir sigur í _Clausura_-keppninni.