Íslandskort.is (original) (raw)
Árið 1728 lést Magnús Arason sem konungur hafði falið að stunda mælingar á Íslandi svo að hægt yrði að gera nákvæmt kort af landinu. Magnús hafði lokið við að búa til kort af svæðinu frá Reykjanesi til Arnarfjarðar. Mikill hluti verksins var því eftir og hafði danska stjórnin fullan hug á að ljúka því. Í því skyni var árið 1730 sendur til landsins norskur leiðangur undir stjórn Thomas Hans Henrik Knoff. Hann hófst þegar handa og eftir fimm sumur hafði hann klárað það sem Magnús skyldi eftir. Hann leiðrétti líka kort Magnúsar þar sem þess þurfti við. Hér var þess freistað í fyrsta sinn að kanna landið mest allt en þeir sem áður höfðu gert kort af landinu höfðu aðallega stuðst við örfáa hnattstöðupunkta, frásagnir kunnugra manna og ýmsan landfræðilegan samtíning.
Knoff bjó til sjö héraðakort af landinu og heildarkort sem hann lauk við að mestu árið 1734. Knoff hafði sent eintak af sumum kortunum til yfirboðara síns í Noregi og var það illa séð af hinum danska stiftamtmanni og lentu mælingarnar því í embættis- og valdatogstreitu. Hún endaði með því að konungur gaf út tilskipun um að Knoff skyldi skila skjalasafni hersins öllum eftirmyndum og uppköstum Íslandskortanna. Kort Knoffs enduðu því í skjalageymslu og komu engum að gagni næstu áratugina.
Það er ekki fyrr en í byrjun sjötta áratugarins að rykið var dustað af Íslandskorti Knoffs en 1752 kom út bók Niels Horrebow um Ísland. Með henni fylgdi kort af Íslandi byggt á Knoff. Það er minnkuð útgáfa af kortinu og fremur óvandað og fátæklegt að gerð en Danir kunnu á þessum tíma illa til eirstungu og kortagerðar. Stiftamtmanninum á Íslandi, Otto Manderup Rantzau greifa, virðist hafa runnið þetta til rifja því hann ákvað að gangast fyrir því að kort Knoffs yrði birt í nákvæmari og betri gerð. Í því skyni leitaði hann til kortagerðarstofnunar þeirrar sem einna mest orð fór af í Evrópu um þessar mundir, Homanns-erfingja (Homann Erben) í Nürnberg. Kortið birtist árið 1761 með firna löngu nafni á latínu þar sem gerð er grein fyrir uppruna þess.
Neðst í hægra horninu er sagt nánar frá tilurð kortsins. Frá frumgerð Knoffs er það minnkað um meira en helming en efnislega er það að mestu leyti óbreytt og flest tekið með sem skiptir máli. Lesmálsgreinum er snúið á latínu eða þýsku og jafnvel bæði málin. Örnefnum hefur fækkað og fá mörg þeirra slæma meðferð. Enginn landfræðitexti fylgir kortinu á bakhlið þess en í textanum hægra megin er mönnum vísað um slíkt til nýútkominnar bókar eftir Anton Friedrich Büsching. Athygli vekur að Hekla fær ekki jafn veglegan sess og á öðrum kortum.
Íslandskort Homanns-erfingja var prentað sem lausblaðakort og virðist aldrei hafa verið birt í kortasöfnum. Aðeins er kunn ein útgáfa þess, frá 1761. En aðrir tóku það til fyrirmyndar og höfðu að undirstöðu nýrra, aukinna og lagfærðra korta sem juku útbreiðslu þess og komu fyrir sjónir kortagerðarmanna, landfræðinga og annarra er fjölluðu um Ísland og íslensk málefni.
Nánar
Höfundur: Homanns-erfingjar
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1761
Útgáfa 1
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm
Útgáfa 3
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm
Útgáfa 4
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm
Útgáfa 5
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm
Útgáfa 6
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm
Útgáfa 7
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm
Útgáfa 8
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1761
Stærð: 45×59 sm