Um Sveitarfélagið Voga (original) (raw)
Sveitarfélagið Vogar
Þann 1. janúar 2006 var nafni Vatnsleysustrandarhrepps breytt í Sveitarfélagið Vogar, samhliða því að stjórnskipan sveitarfélagsins var breytt. Sveitarfélagið Vogar er næst landstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær yfir Vatnsleysuströnd og bæinn Voga. Í sveitarfélaginu bjuggu rúmlega 1.200 manns þann 1. desember 2007. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt síðastliðin ár, enda í Vogum mjög fjölskylduvænt og stutt að sækja atvinnu og þjónustu. Sveitarfélagið er því að vissu leyti nýtt, en byggir á gömlum og traustum grunni.
Sveitarfélagið Vogar er mjög vel staðsett. Í nágrenni við þjónustu og vinnumarkað höfuðborgarsvæðisins, en býður upp á rólegt og vinalegt umhverfi þar sem stutt er í náttúruna
Íbúafjöldi og aldurs- og kynjaskipting
Þann 1. janúar 2023 bjuggu tæplega 1.400 íbúar í sveitarfélaginu. Á forsíðu heimasíðunnar kemur fram íbúafjöldi sveitarfélagsins og er sú tala uppfærð nokkuð reglulega.
Fjarlægðir og stærð
- Vogar eru staðsettir 1,5 km frá Reykjanesbraut.
- Reykjanesbrautin er upplýst og einnig vegurinn niður í Voga.
- Til Reykjanesbæjar er 12 mín. akstur.
- Til Hafnarfjarðar er 17 mín. akstur.
- Landsstærð er 200 ferkílómetrar, þ.a. 25 ferkílómetrar af góðu byggingarlandi.
- Sveitarfélagið Vogar er næst landstærsta sveitarfélag á Suðurnesjum.
Keilir
Keilir er einkennisfjall Reykjaness og stolt Vogamanna. Nafnið fær fjallið af fallegri lögun sinni sem sannarlega er keila. Keilir er móbergsfjall sem rís 379 metra yfir sjávarmáli. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýni er glæsilegt af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar.
Aðgengi að Keili er af Reykjanesbraut um mislæg gatnamót á Strandarheiði. Vegur liggur um Afstapahraun að Höskuldarvöllum. Vegurinn er grófur malarvegur og torfær minni bílum. Keyrt er að Höskuldarvöllum og best er að leggja bílnum þar sem sá vegur byrjar. Þaðan er um þriggja kílómetra gangur að fjallinu, um nokkuð ógreiðfært hraun fyrst í stað en stutt er í betra færi. Tilvalið er fyrir fjölskylduna að ganga á Keili, en gangan er um 7 km löng og tekur 3-4 klukkustundir, upp fjallið er nokkuð greinileg slóð og mikilvægt er að halda sig innan hennar til að forðast gróðurskemmdir. Landslagið er slétt að fjallinu, en nokkuð bratt upp. Á toppi fjallsins er gestabók og eru gestir hvattir til að rita nafn sitt í hana.
Sögubrot
Sveitarfélagið Vogar varð til við nafnabreytingu sem tók gildi 1. janúar 2006, en um aldir hafði sveitarfélagið gengið undir nafninu Vatnsleysustandarhreppur. Elstu heimildir um Vatnsleysustrandarhrepp eru í landamerkjalögum frá 1270 og má því ljóst vera að hreppurinn er eitt elsta sveitarfélag landsins.
Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám. Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum). Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám. Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík.
Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag. Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit, hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg Vogastapi eða oft aðeins Stapi.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því með lögum árið 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.
Útdráttur úr samantekt Viktors Guðmundssonar, leiðsögumanns:
Brot úr sögu Vatnsleysustrandarhrepps
Heimildir:
Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Gísli Brynjólfsson. Byggðir Suðurnesja. Í Árbók Ferðafélags Íslands 1984.
Guðmundur B. Jónsson .Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
Jón Böðvarsson. Suður með sjó. Rótarýklúbbur Keflavíkur 1988.
Jón Dan. Atburðirnir á Stapa. Almenna Bókafélagið 1973.
Jón Jónsson. Um heiðar og hraun. Í Árbók Ferðafélags Ísland 1984.
Jón Jónsson. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
Sesselja Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Lionsklúb. Keilir 1995.